143. löggjafarþing — þingsetningarfundur

forseti Íslands setur þingið.

[14:07]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Gefið hefur verið út svohljóðandi bréf:

„Handhafar valds forseta Íslands, samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar, forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar, gjöra kunnugt:

Vér höfum ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar þriðjudaginn 1. október 2013. Um leið og vér birtum þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 24. september 2013.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Einar K. Guðfinnsson.

Markús Sigurbjörnsson.

____________________________

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

 

Bréf handhafa valds forseta Íslands um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 1. október 2013.“

Samkvæmt bréfi þessu sem ég hef nú lesið lýsi ég því yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

„Varla er sú list, að menn hafi jafn lengi þreytt með óvissum árángri og landstjórnarlistina“ voru upphafsorð Jóns Sigurðssonar í greininni „Um alþíng á Íslandi“ sem birtist í fyrsta árgangi Nýrra félagsrita árið 1841, texti sem á vissan hátt á erindi við okkur öll, sýnin á þingið og þjóðarviljann jafn brýn og þá, þótt heil öld og þorri annarrar séu liðnar, greinin vitnisburður um glöggan skilning á eðli þingsins og samspilinu við þjóðina, enn merkilegri fyrir þá sök að allt vald var í hendi konungs og alger óvissa ríkti þá um málefni Íslands, nánast engin von að almenningur hlyti þau lýðréttindi sem nú þykja sjálfsögð.

Jón Sigurðsson varð síðar frelsishetja þjóðarinnar og mynd hans hefur lengi vakað yfir daglegri önn hér í salnum. Þótt ungur væri þegar hann skrifaði sína fyrstu grein um Alþingi á boðskapurinn erindi við samtíð okkar, einkum nú þegar vandi þings og þjóðar er á dagskrá og leita þarf brýnna lausna eins og enn má heyra við þingsetningu frá Austurvelli.

Á vissan hátt mótar greinin grundvöll að lýðræðishefð okkar Íslendinga, birtir vegvísa sem smátt og smátt urðu samofnir skilningi þjóðarinnar á verkefnum þingsins og eigin rétti. Líkt og rit Rousseaus, Lockes, Mills, Montesquieus og annarra hugsuða lýðræðisbyltingarinnar í Evrópu mótuðu stjórnskipun sem enn er í gildi í álfunni færði Jón Sigurðsson okkur sýn á samhengið í sögu Íslendinga og glímunni við lýðræðisvanda hverrar tíðar.

Því er gagnlegt að líta aftur til fyrsta árgangs Nýrra félagsrita þegar styrkja þarf stöðu þingsins í vitund þjóðarinnar og taka mið af vaxandi óskum um þátttöku fólksins í ákvörðunum því að þar var sleginn hinn skýri tónn: „eitthvort hið auðveldasta og kröptugasta meðal til að vekja menn til umhugsunar um hagi þjóðarinnar er það, að þeir menn sem alþýða treystir bezt komi saman til að ráðgast um gagn landsins og nauðsynjar, og það í landinu sjálfu.“

„Sá er tilgángur allrar stjórnar, að halda saman öllum þeim kröptum sem hún er yfir sett, og koma þeim til að starfa til eins augnamiðs, en það er velgengni allra þegnanna, og svo mikil framför bæði á andlegan og líkamlegan hátt sem þeim er unnt að öðlast.“

Það er „hin mesta sæmd sem nokkurr maður getur hlotið, að halda fullkomnu trausti samlanda sinna, og styrkja til alls þess góða, sem náð verður á hverri tíð“.

„… þegar hverr mótmælir öðrum með greind og góðum rökum og stillíngu, og hvorugir vilja ráða meiru enn sannleikurinn sjálfur ryður til rúms, og auðsénn er hvorutveggja tilgángur, að verða allri þjóðinni til svo mikils gagns sem auðið má verða, enda leggi hvorugur öðrum það til að raunarlausu, sem ekki sómir ráðvöndum manni, þá má slík keppni aldrei verða til annars enn góðs fyrir fósturjörðina og enar komandi kynslóðir …“

„… þjóðin sjálf á höfuðvaldið, og enginn á með að skera úr málefnum þeim, sem allri þjóðinni viðkoma, nema samkvæmt vilja flestra meðal þjóðarinnar; kemur það einkum fram í ákvörðun alls þjóðkostnaðar, eður í skattgjaldinu og skattgjaldsmátanum, og þaraðauki í löggjöf og viðskiptum við aðrar þjóðir.“

„… eg óttast að margir kunni að vera enn meðal alþýðu, sem ekki eru að fullu sannfærðir um nytsemi þingsins, eða ekki hafa hugsað um það nákvæmlega, en þetta er mjög áríðanda, þareð tilgángur þíngsins er að mestu sá, að efla framför alþýðu og glæða þjóðaranda hennar.“

„Þá að eins má fulltrúaþíngið verða að gagni, þegar menn í fyrstu eru sannfærðir um, að það megi gjöra gagn, og síðan leggjast allir á eitt að haga því sem bezt, og kippa því í lag smámsaman sem í öndverðu kynni að hafa tekizt miður; en sérhverr vandi sig sem mest, og hugleiði hvað af fulltrúum landsins er heimtanda, og búi sig undir, eins og hann ætti sjálfur von á að verða fulltrúi, því ekki ríður minna á að þjóðin hafi vit á hvað fram fer og haldi reikníng við fulltrúana, enn að fulltrúarnir hugsi um starf sitt og leitist við að vanda það.“

„Þegar alþíng skal setja, þá ríður einna mest á að gjöra sér ljósa grein fyrir, til hvors það sé ætlað, og hvors af því sé væntanda, því ef menn hafa eigi ljósa hugmynd um það frá upphafi, þá er uggvænt, ef alþíng verður ekki við hugarburði sérhvers eins, að þá muni hverjum þykja lítið í það varið, og fá leiða á því, en þá er en mesta hætta búin að allt ónýtist.“

Þegar hinn ungi hugsjónamaður birti þessa grein í tímariti sem nokkrir félagar stóðu að í Kaupmannahöfn höfðu Íslendingar um aldir verið einna fátækastir meðal þjóða í Evrópu og Reykjavík var hrörlegt þorp með fáein hundruð íbúa. Enn voru nokkur ár þar til kosið var til hins endurreista Alþingis og einkum efnameiri bændur og kaupmenn fengu þann rétt, konur án hans til nýrrar aldar og fátækust alþýða í nær hundrað ár. Hið nýja þing var aðeins ráðgefandi, sat í fáeinar vikur annað hvert ár og tíðindi af störfum þess marga mánuði, jafnvel missiri, að berast í aðra landshluta.

Þróunin frá þessum tíma til lýðræðisskipunar okkar daga er á margan hátt byltingarkennd, enda lýðræði ekki fastmótað form eða endastöð heldur vakandi leit, vegferð til aukins frelsis, framfara og ábyrgðar. Þó er kjarninn sá sami og fram kom í þessari grein Nýrra félagsrita, sýnin á kjörna fulltrúa og stöðu þingsins, tilganginn með störfum þess og aðhaldið frá þjóðinni þar orðuð á þann hátt að við skynjum öll að textinn geymir sígilt veganesti þótt tíðin sé breytt og verkefni flest annarrar ættar.

Þegar nýtt þing kemur nú saman að hausti og umskipti hafa orðið í kjölfar kosninga væri hægt að víkja að mörgu en boðskapur Nýrra félagsrita lýsir því sem mestu skiptir og óþarfi að reyna að orða hann á annan veg. Slíkar greinar skipta sköpum í sögu þjóðar og eiga erindi á öllum tímum.

Því er það í anda hennar sem ég bið alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland.]