143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þegar við veltum fyrir okkur sögu lands og þjóðar vaknar sú spurning iðulega hvað hefði gerst ef aðrar ákvarðanir hefðu verið teknar á tilteknum tímapunkti. Hvað ef Íslendingar hefðu ekki orðið kristnir í kringum aldamótin 1000? Hvað ef Íslendingar hefðu ekki gengið Noregskonungi á hönd? Hvað ef Alþingi hefði verið endurreist á Þingvöllum? Allar þessar spurningar minna okkur á að stjórnmál snúast um val, hvaða ákvarðanir eru teknar og hvaða afleiðingar þær hafa á líf Íslendinga allra.

Eftir hina miklu vinnu undanfarinna ára við að ná tökum á nánast gjaldþrota ríkissjóði sem kostaði samdrátt í útgjöldum og hafði auðvitað ekki jákvæð áhrif á ýmsar grunnstoðir samfélagsins, eins og menntakerfið og heilbrigðiskerfið, er stefna nýrrar ríkisstjórnar og hennar val mikil vonbrigði. Forgangsmál ríkisstjórnarinnar sem birtust í sumar voru að skerða tekjur ríkisins um 10 milljarða á þessu ári og því næsta með því að breyta sérstaka veiðigjaldinu, sem var ótæk ráðstöfun þegar fjármál ríkisins eru í því horfi sem þau hafa verið frá því að hundruð milljarða féllu á ríkissjóð með hruninu haustið 2008. Almenningur horfði á útgerðarmenn í stærstu útgerðum landsins greiða sér hundruð milljóna í arð í kjölfarið.

Og ríkisstjórninni þótti ekki nóg að gert fyrir stóreignafólk og hefur því boðað að auðlegðarskatturinn verði ekki framlengdur og falli niður árið 2015. Samanlagt skila ráðstafanir ríkisstjórnarinnar því að tekjur ríkisins eru skertar um 20 milljarða á ársgrundvelli til framtíðar og í kjölfarið tökum við við enn einu fjárlagafrumvarpi þar sem frekari niðurskurður er fyrirhugaður á samneyslunni, í þetta sinn ekki aðeins vegna þeirrar illu nauðsynjar að lækka fjárlagahallann heldur hafa verið teknar óþarfar pólitískar ákvarðanir sem skerða tekjur ríkissjóðs, ákvarðanir sem þeir sem þær tóku virðast eiga erfitt með að bera ábyrgð á því að þeir endurtaka stöðugt að ýmis góð framfaraverkefni hafi verið reist á veikum tekjugrunni en sleppa því að geta þess að þeir tóku sjálfir þá ákvörðun að afsala íslenskum almenningi þessum tekjum. Þetta er dæmi um val stjórnmálamanna sem hefur afleiðingar á líf Íslendinga allra.

Kannski er besta dæmið um val nýi gistináttaskatturinn sem öfugt við þann gamla á ekki að leggjast á heilbrigða erlenda ferðamenn heldur fárveikt fólk sem hefur ekkert val heldur neyðist til að leggjast inn á spítala og eyða þar nótt eða nóttum. Talsmenn ríkisstjórnarinnar segja að gjaldið sé ekki hátt. Það er vissulega ekki hátt fyrir suma, skilar raunar óverulegum tekjum til ríkissjóðs en þetta snýst um grundvallaratriði, hvort heilbrigðiskerfið eigi að vera fyrir alla óháð stöðu þeirra.

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs á næsta ári að sögn hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að 10 milljarða kr. halli er falinn með því að færa 10 milljarða úr vasa Seðlabankans yfir í vasa ríkissjóðs, vasa sem er á sömu buxum. Auðlegðarskatturinn sem skilar tæpum 10 milljörðum í ár á að falla niður árið 2015 og mun því skilja eftir 10 milljarða gat á þeim fjárlögum sem ekki liggur fyrir hvernig á að loka. Ný ríkisfjármálaáætlun gerir því ekki ráð fyrir neinum raunverulegum afgangi af rekstri ríkissjóðs á næstu árum. Ekkert svigrúm verður því til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs, sem hljóta að vera vonbrigði fyrir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, og enn síður verður svigrúm til þess að hefja nauðsynlega uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og innviðum samfélagsins.

Öfugt við stöðuna fyrir fjórum árum þegar síðasti fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skildi við höfum við núna val, gætum valið að halda áfram, gætum haldið áfram að afla tekna frá þeim hópum sem eru aflögufærir, frá þeim sem breiðust hafa bökin, gætum fylgt fyrri ríkisfjármálaáætlun, gætum haldið áfram að stuðla að jöfnuði, gætum hafið uppbyggingu og farið að efla samneysluna, samneyslu sem er hagur allra þeirra sem byggja þetta land. Eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan: Hér eru góð skilyrði til að búa en það skiptir máli hvaða leiðir eru valdar við uppbyggingu. Sú leið sem hér hefur verið valin er ekki réttlátasta leiðin, ekki leið sem skilar góðu samfélagi fyrir alla.

Það sem hér þarf að gera eftir þann forsendubrest sem allir Íslendingar urðu fyrir, allir skattborgarar þessa lands, er að hefja uppbyggingu. Við sjáum það ekki síst á þeim stofnunum sem lengi hafa verið burðarvirki samfélagsins. Þar er ég að tala um skólana okkar, heilbrigðisstofnanirnar, þær stofnanir þar sem allir fá aðgang óháð stétt og stöðu og við tryggjum tækifæri allra.

Virðulegi forseti. Stundum heyri ég því fleygt að Alþingi Íslendinga væri betra og traustara ef þar væri ekki fólk með skoðanir og hugmyndir. Það er hins vegar einmitt hlutverk þessarar stofnunar að draga fram hinar ólíku hugmyndir og gera fólki ljóst að það skipti máli hvaða leiðir eru valdar. Staðreyndin er sú að það velferðarkerfi sem við Íslendingar eigum byggist á baráttu og hugmyndum þeirra kynslóða sem hafa byggt þetta land, baráttu verkalýðshreyfingar fyrir bættum kjörum, baráttu framsýns fólks fyrir menntun og skólum, baráttu ekki síst kvenna fyrir spítölum og sjúkrahúsþjónustu.

Við lágmyndina sem prýðir aðalbyggingu Landspítalans segir: Hús þetta, Landspítalinn, var reist fyrir fé sem konur höfðu safnað og Alþingi veitt á fjárlögum til þess að líkna og lækna.

Þetta var við upphaf heimskreppunnar miklu á fjórða áratugnum á þeim tíma þar sem neyð margra var áþreifanleg, en samt treystu Íslendingar sér til að taka stórar ákvarðanir sem báru vott um ákveðnar samfélagshugmyndir því að Landspítalinn er miklu meira en hús eða stofnun. Hann sinnir því samfélagslega verkefni að veita samhjálp og velferð.

Það eru blikur á lofti í málefnum Landspítalans einmitt vegna þeirra kosta sem ný ríkisstjórn hefur valið. Því miður virðist skorta framtíðarsýn. Menn sem áður studdu byggingu nýs landspítala á borð við hæstv. heilbrigðisráðherra virðast hlaupnir frá því og engar raunhæfar hugmyndir eru á borðinu um hvernig eigi að hefja uppbyggingu. Stundum finnst manni jafnvel að verið sé að tala niður heilbrigðiskerfið og Landspítalann, segja að kerfið sé vont og spítalinn ómögulegur án þess þó að vilja efla hann heldur þvert á móti gagngert til að fara aðrar leiðir, leiðir einkavæðingar, mismununar og tvöfalds heilbrigðiskerfis, sem er gott fyrir þá ríku og slæmt fyrir þá fátæku. Það er líka val.

Enn er óvíst hvernig verður haldið á málum í kjarasamningum í haust. Hæstv. fjármálaráðherra hefur boðað varúð sem ég get tekið undir, en ég hef enn ekki heyrt að jöfnuður verði lykilatriði í gerð nýrra samninga því að það þarf að horfa til þess hvernig við getum bætt kjör hinna verst settu í hópi almennings. Þá skiptir máli að horfa til launanna en ekki síður grunnþjónustunnar, bótakerfisins, því að allt skiptir máli. Það gerir lítið að lækka skatta sem nemur eins og einni sjúkrahúsnótt á mánuði.

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að heyra hæstv. forsætisráðherra vera á rómantísku nótunum hér áðan og tala um þá þjóð, þá einu þjóð sem byggi hér í einu landi, nokkurs konar virki í norðri þar sem þjóðin unir glöð við sitt. Er þetta framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar? Er heimurinn ekki stærri en Ísland? Ungt fólk hér á landi kallar eftir raunsærri og nútímalegri framtíðarsýn þar sem heimurinn allur er undir, þar sem hægt er að mennta sig, rannsaka og skapa eitthvað nýtt, vinna með fólki hvaðanæva úr heiminum. Ég fann ekki þá framtíðarsýn í þessari útópíu, hún minnti mig meira á andvarp útvatnaðrar fjölnismennsku, rétt eins og sýn ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum boðar líka afturhvarf til fortíðar.

Það er talað um hina einstöku, fögru og hreinu íslensku náttúru og að Íslendingar eigi að vera fyrirmynd í umhverfismálum, en hvað hefur hæstv. ríkisstjórn valið að gera í umhverfismálum? Hæstv. umhverfisráðherra aflýsti stækkun friðlandsins í Þjórsárverum þar sem Norðlingaveita er innan marka og hefur ekki gefið skýr svör um það hvort hann hyggist fylgja lögum og ljúka friðlýsingu alls svæðisins. Hæstv. umhverfisráðherra ákvað svo að bæta um betur og tilkynnti eins og hver annar sólkonungur að hann hygðist afturkalla ný lög um náttúruvernd. Svo kom víst í aukasetningu að hann hygðist leita til þingsins til að klára það. Ný lög þar sem meðal annars varaúðarreglan er lögfest, almannaréttur er aukinn og vernd náttúruminja undirstrikuð með mun skýrari hætti en í eldri löggjöf. Er þetta framtíðarsýnin sem ný ríkisstjórn býður upp á?

Hvað hefur hæstv. forsætisráðherra að segja um þennan málaflokk? Hann hélt hér langa tölu um umhverfisvænu orkuna á Íslandi og það væri nú aldeilis gott að við þyrftum ekki að brenna kolum. Virðulegi forseti, er þetta fjarvistarsönnun okkar frá því að gera betur í umhverfismálum? Það var ekki eitt orð um loftslagsmálin, ekki eitt orð um nýjustu skýrslur í þeim efnum nema jú að versnandi aðstæður til matvælaframleiðslu í heiminum skapi okkur tækifæri. Ekki orð um sjálfbæra þróun, ekki orð um það hvernig við getum lagt okkar af mörkum, tekið forustu og verið í raun og veru fyrirmynd á alþjóðavettvangi. Við gerum það ekki með raupi um jarðarber ræktuð með jarðhita heldur með raunverulegum aðgerðum, til að mynda með orkuskiptum í samgöngum sem mér sýnast hafa verið núlluð út úr fjárlögum, réttarbótum í náttúruvernd, ekki afturkalli.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Eitt er framtíðarsýn, annað er hin almenna sýn í daglega lífinu sem maður notar til að komast í gegnum daginn. Ef ég kvarta undan skorti á framtíðarsýn get ég svo sem líka kvartað undan skorti á almennri sýn hjá hæstv. ríkisstjórn. Nú síðast kom á daginn að hæstv. forsætisráðherra leggur að jöfnu erlenda fjárfestingu og erlenda lántöku, sem ég held að fæstir hagfræðingar mundu taka undir. Hæstv. iðnaðarráðherra brá sér daginn eftir í hlutverk stjórnmálaskýranda og fór í löngu máli yfir hvað hún teldi hæstv. forsætisráðherra hafa sagt, sem reyndist vera eitthvað allt annað. Og hér segist hæstv. forsætisráðherra vilja auka fjárfestingu. Á sama tíma er fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem gekk út á að efla fjárfestingu hins opinbera sem verið hefur í sögulegu lágmarki og gekk meðal annars út á að fjárfesta í rannsóknum, nýsköpun, skapandi greinum, ferðaþjónustu o.fl., því sem við vorum öll sammála um fyrir kosningar að þyrfti að efla, þurrkuð út. Engin framtíðarsýn hefur verið lögð á borðið.

Ég hjó líka eftir því að hæstv. forsætisráðherra minnti á nefndarstörf um skuldamál heimilanna og það sló mig satt að segja líka eins og hv. formann Samfylkingarinnar þegar ég heyrði hæstv. fjármálaráðherra segja aðspurður um skuldalækkanir að það væru vissulega uppi vangaveltur um að nýta það svigrúm sem gæti myndast við losun hafta í þær. Ég sem hélt að þau mál hefðu verið forsenda nýrrar ríkisstjórnar í vor. Kannski er ástæða til að ræða þennan forsendubrest eitthvað nánar. Það er ekki nema von að þegar landsmenn heimsækja lénið misskilningur.is birtist ríkisstjórn Íslands.

Góðir landsmenn. Sagan einkennist af vali, af ákvörðunum sem skapa samfélagið sem við byggjum. Lítum til Norðurlandanna sem hafa verið ofarlega á öllum listum um velsæld á undanförnum áratugum þó að þar hafi líka gengið yfir kreppur og þrengingar. Sú staðreynd byggist á þeim ákvörðunum sem þar voru teknar um uppbyggingu samneyslunnar, uppbyggingu öflugra velferðarkerfa, ákvörðunum um opin og lýðræðisleg samfélög, ákvörðunum um að byggja upp rannsóknir og menntun til að skapa aukin tækifæri og aukna hagsæld. Ákvörðunum um að tryggja jöfnuð til að tryggja velsæld allra.

Svo sannarlega skiptir því máli hvaða ákvarðanir verða teknar á Alþingi því að þær varða framtíðarhag landsmanna allra. Ég vona að við berum gæfu hér á þingi til að taka ákvarðanir sem tryggja almannahag því að til þess erum við hér.