143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Góðir Íslendingar. Ég veit ekki hversu oft ég hef staðið hér í þessum ræðustól, og ekki að ástæðulausu, og rætt um tækifærin sem eru til staðar til að sækja fram, öll sóknarfærin sem bíða eftir að verða nýtt, alla orkuna sem rennur óbeisluð til sjávar, auðlindir hafsins sem nú fara vaxandi, fegurð landsins sem dregur sífellt fleiri ferðamenn hingað heim og mannauðinn, fólkið okkar sem breytir möguleikum í margvísleg verðmæti, bæði huglægt og hlutlægt. Þetta er fólkið sem hefur fundið að við sköpum verðmæti með því að gera sem mest úr þeim tækifærum sem eru til staðar hverju sinni, en til þess þurfum við viðspyrnu. Efnahagslífið þarf viðspyrnu. Það þýðir lítið að byggja sífellt fleiri og fleiri hæðir ofan á hús sem ekki stendur á traustum grunni.

Þannig má líta á ríkisfjármálin þar sem vandanum hefur verið velt áfram með lántökum til að fjármagna hallarekstur. Vissulega var vandinn sem við var að etja alvarlegur og fátt annað til ráða til að byrja með en að skuldsetja ríkissjóð til að draga úr áhrifum samdráttarins, en þetta er ekki boðlegur rekstur til lengri tíma.

Nú greiðum við árlega um 30 milljarða vegna skulda sem til eru komnar út af hallarekstri undanfarinna fjögurra ára. Við getum ekki bætt á þann stabba. Við greiðum svo annað eins og reyndar meira til vegna annarra skulda. Á þessu ári var áætlað að við greiddum 85 milljarða í vexti. Það sjá allir að það er ekki hægt að byggja neina framtíð á því að þetta vandamál haldi áfram að vinda upp á sig.

Góðir tilheyrendur. Betri skuldastaða er forgangsmál fyrir margar sakir. Sú augljósa er að við þurfum aukið fjármagn til mikilvægra verkefna, svo sem á heilbrigðissviðinu. Önnur er sú að það skiptir miklu að ríkissjóður sé í færum til að veita viðnám við mögulegum sveiflum í hagkerfinu, svo sem vegna ófyrirséðra efnahagslegra atburða, aflabrests og náttúruhamfara. Við eigum nýleg dæmi um slíka atburði og það blasir við að ef við hefðum ekki greitt niður skuldir á árunum fyrir hrunið hefðu aðstæður orðið allt aðrar við fall bankanna. Lítið skuldsettur ríkissjóður á þeim tíma gat tekist á við erfiðleika með allt öðrum hætti en ella hefði verið.

Þetta er sú viðspyrna sem við ætlum okkur að finna, þ.e. að stöðva skuldasöfnunina, setja okkur markmið um að hefja niðurgreiðslu skulda og ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Þetta boðum við í fjárlagafrumvarpinu sem ég lagði fram í gær, á fyrsta degi nýs þings. Hluti af þessu er að skjóta stoðum undir hagvöxt og efnahagslegt öryggi. Stöðugleiki er mikilvægur á öllum sviðum. Bæði fyrirtæki og heimili þurfa að geta gert áætlanir sem þau geta treyst að standist. Við höfum líka séð að pólitísk óvissa getur af sér efnahagslega óvissu. Það dregur úr fjárfestingum og við sjáum að áætlanir um hagvöxt hafa ítrekað brugðist undanfarin ár. Samhliða vexti efnahagslífsins þarf að byggja hér upp forsendur aukins stöðugleika af þessum ástæðum, bæði í stjórnmálalegu og efnahagslegu tilliti.

Góðir landsmenn. Við munum leggja okkar af mörkum til að skapa hér traustan ramma um íslenskt efnahagslíf en um leið leitum við til aðila vinnumarkaðarins og til almennings um samstarf við að draga upp í þeim ramma mynd jafnvægis og öryggis sem til langs tíma mun skila íslensku samfélagi mestum ávinningi. Við stígum fyrstu skrefin með fjárlagafrumvarpinu til að uppfylla loforð okkar um skattalækkanir og ég er afar ánægður með að geta stigið þessi skref eftir áralanga framhaldssögu síðustu ríkisstjórnar um skattahækkanir á hækkanir ofan.

Ég las í blöðunum í morgun að forustumenn atvinnurekenda hefðu viljað fá meiri lækkanir. Ég skil það sjónarmið út af fyrir sig. Það væri vissulega í takt við fyrirmyndarlandið sem forsætisráðherra talaði um hér í upphafi að geta lækkað verulega skatta á fólk og fyrirtæki, en um leið verðum við að fara varlega. Hvert 0,1 prósentustig í tryggingagjaldi á fyrirtæki stendur fyrir um 1 milljarð kr. Vissulega er þetta fé sem ekki fer forgörðum þótt það renni ekki beint í ríkissjóð en skattalækkanir nú bera þess merki að við erum með ríkisreksturinn í járnum. En við höfum trú á framtíðinni og því að breytt stefna og áherslur muni skila okkur fram á við. Í trausti þess heitum við frekari lækkun gjaldsins. Á næstu tveimur árum mun það lækka um fjórðung úr prósenti að auki sem að endingu skilar tæpum 4 milljörðum aftur inn í hagkerfi efnahagslífsins og þaðan vonandi til almennings í formi kjarabóta og almennrar hagsældar.

Atvinnurekendur sem gagnrýna að gjaldið skuli ekki lækka meira en raun ber vitni verða einnig að líta sér nær. Þeir þurfa að svara því hversu stór hluti vandans sem þeir glíma við sé vegna þess að tryggingagjaldið er prósentinu hærra en ekki lægra þegar þeir hafa hækkað launin um 35% undanfarin ár, langt umfram umsamdar launahækkanir og sýnu mest í fjármálageiranum. Hvort ætli reynist þeim þyngra í skauti af þessu tvennu þegar grannt er skoðað, þær ákvarðanir eða að tryggingagjaldið sé hálfu prósentinu hærra eða lægra?

Á sama tíma furða menn sig á mælingum verðbólgunnar.

Ég leyfi mér að spyrja hvort ábyggilegt sé að allir séu að toga í sömu átt. Á sama tíma lýsi ég því yfir að það er forsenda þess að okkur takist að byggja hér upp nauðsynlegan efnahagslegan stöðugleika og grundvöll fyrir alvörukjarabætur að við gerum einmitt það, að við togum öll í sömu átt.

Ríkisstjórnin leggur sitt af mörkum til að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og til aukins stöðugleika með hallalausum fjárlögum. Til að gera þetta lækkum við tekjuskatt um 0,8 prósentustig í miðþrepinu. Um 80% skattgreiðenda greiða skatt í því þrepi. Við hækkun bótagreiðslur til lífeyrisþega, lækkum virðisaukaskatt á bleium, framlengjum endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna byggingarframkvæmda, hækkum frítekjumark vaxtatekna einstaklinga í 125 þúsund, um 25%, og við hækkun launaþak í fæðingarorlofi í 370 þús. kr. Við framlengjum átak til hærri vaxtabóta til handa tekjulágum fjölskyldum og við hækkum frítekjumark barna mjög hressilega, úr 104 þús. kr. í 180 þús. kr., og verjum um leið nýlega rúmlega 20% hækkun barnabóta sem tók gildi á þessu ári. Hana verjum við á næsta ári.

Það má gera ráð fyrir að í heild hafi skattalækkanir fjárlagafrumvarpsins og tengdra frumvarpa áhrif til hækkunar á kaupmætti ráðstöfunartekna upp á um 0,3%. Við viljum ekki eyða meiru en við öflum en við viljum heldur ekki leggja frekari byrðar á almenning og fyrirtæki í almennum rekstri. Við afnemum undanþágu sem fyrri ríkisstjórn veitti fjármálafyrirtækjum í slitum. Undanþágan var fyrir því að greiða ekki bankaskatt og hann hækkum við um leið. Með þessum aðgerðum og öðrum færum við byrði af smærri fjármálafyrirtækjum til þeirra stærri og við sköpum með því svigrúm sem við látum fólkið í landinu njóta.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það hefur á margan hátt verið dálítið kostulegt að heyra forustu stjórnarandstöðunnar koma hingað og lýsa sinni sýn á ástandið eins og það blasir við þeim í dag. Hér er talað um að það skorti framtíðarsýn. Flokkarnir sem hér hafa fengið að koma upp í ræðustól og tala fyrir sinni framtíðarsýn töluðu allt síðasta kjörtímabil út og suður. Það væri alveg sama hvort við tækjum Evrópusambandsmálin sem dæmi, stöðuna í efnahagslífinu almennt, skattstefnuna eða útgerðina þar sem allt var á haus allt kjörtímabilið og engin niðurstaða fékkst. Það mætti kannski helst segja að þeir hefðu náð saman um hluti eins og Icesave-samningana sem 98% þjóðarinnar á endanum felldu. (Gripið fram í.)

Hér er talað um innleiðingu sjúklingaskatta. Þau sex ár sem Samfylkingin var í ríkisstjórn hækkaði hlutdeild heimilanna í heilbrigðisgjöldunum. Hún hafði verið um 17,5% þegar Samfylkingin komst í ríkisstjórn en heimilin báru 19,6% þegar Samfylkingin fór úr ríkisstjórn. Það var árangurinn. Svo gera menn sig breiða vegna þess að sú ríkisstjórn sem hér er nýtekin við leitar leiða til að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum sem fyrri ríkisstjórn tókst aldrei að gera með því að taka legugjald vegna sjúklinga sem koma á spítalann. Menn gera sig breiða vegna þess og fordæma það. Hvar er þetta fólk þegar aðrir sjúklingar koma á spítalann og labba þaðan út með tugþúsundareikning fyrir það eitt að hafa ekki verið lagðir inn? Hver mælir fyrir óréttlætinu sem í því felst? Hver er til þess bær að tala fyrir því að það sé eitthvert sérstakt réttlæti að sumir labbi út með tugþúsundareikning en þeir sem fara í innlögn fái frí lyf, frían mat og 0 kr. reikning þegar upp er staðið? Ég segi: Það er fullkomin hræsni að flytja þennan boðskap hér þegar ný ríkisstjórn leitar leiða til að loka fjárlagagatinu, ekkert nema hræsni.

Virðulegi forseti. Ég trúi því að þrátt fyrir um margt hefðbundinn ágreining í upphafi þings muni menn taka höndum saman og vinna þjóðinni gagn á þessu þingi og út allt þetta kjörtímabil. Þetta hafa á margan hátt verið erfið ár og erfiðir tímar fyrir þjóðina, einnig í pólitísku tilliti, fyrir þingið, fyrir fyrirtækin og heimilin, en við vitum að það er hægt að sækja fram og bæta lífskjörin.

Góðir landsmenn. Megi störf okkar á Alþingi verða uppbyggileg og til gagns fyrir land og þjóð, öll samskiptin við fólkið og fyrirtækin, félagasamtökin, skólana, menningarstofnanir, íþróttirnar og alla hina sem eiga við okkur erindi og horfa til þess sem hér er að gera, veita okkur umsagnir og sitt álit, verða til þess að við færumst áfram á braut framfara. Megi þess störf öll saman byggja undir bætt traust á störfum Alþingis og um leið bjartari tíma fram undan.