143. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:06]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við ræðum hér í kvöld um stefnu ríkisstjórnarinnar, framtíðarsýn okkar og áherslur. Af mörgu er að taka og mikilvægt að vel takist til. Brýnasta úrlausnarefnið og forsenda vaxtar fyrir bæði almenning og fyrirtæki í landinu er að okkur takist að ná samstöðu um að stöðva skuldasöfnun ríkisins og koma af stað vexti í atvinnulífinu.

Þjóð sem rekur ríkissjóð sinn með tapi ár eftir ár er ekki komin á botninn. Hún sekkur dýpra og dýpra og nær ekki viðspyrnu, þeirri viðspyrnu sem þarf til þess að fara að byggja upp. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að eitt fyrsta verkefni þessarar ríkisstjórnar hafi verið það að ná viðspyrnu með því að leggja fram hallalaus fjárlög.

Uppbygging getur nú hafist. Lykillinn að bættum lífskjörum landsmanna allra er aukin verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Við þurfum að auka hagvöxt, fjölga störfum, nýta tækifærin og sækja fram. Þetta hljómar kannski klisjukennt en þannig er það bara.

Það eru sannkölluð forréttindi að gegna embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra á svona tímum og fá þannig tækifæri til þess að koma beint að þeim málum sem snerta atvinnuuppbyggingu í landinu. Verkefnið er stórt. Ábyrgðin er mikil, en ég ætla að fá að gera þá játningu hér að þetta er það skemmtilegasta verkefni og mest ögrandi sem ég hef tekið að mér og ég hlakka til að starfa við þennan málaflokk.

Á stuttum tíma í embætti hef ég heimsótt fyrirtæki og fengið á fundi til mín í ráðuneytið gríðarlegan fjölda fólks sem hefur hugmyndir að stórum sem smáum verkefnum. Fólk sem segir að nú finni það von og jákvæðan anda gagnvart fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu. Það kemur til mín bjartsýnt að kynna áætlanir og verkefni sem geta komið okkur fram á veginn til góðs. Margt af þessu fólki trúir manni líka fyrir því að það hafi verið nærri búið að gefast upp. Það hafi einfaldlega verið búið að ákveða á síðasta kjörtímabili að bíða og freista þess að það kæmu stjórnvöld til valda eftir kosningar sem væru hliðholl uppbyggingu atvinnulífs.

Ég vil stuðla að uppbyggingu á öllum sviðum og ég tek ekki þátt í þeim leik að stilla einni atvinnugrein upp á móti annarri og skipa mönnum í lið með og á móti. Frekar ósmekklegar aðdróttanir um að maður gangi erinda erlendra auðhringa finnast mér hvorki bera vott um ný stjórnmál né bjarta framtíð.

Hagstætt umhverfi nýsköpunar fer vel saman við áherslu um uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Fjárfesting í sjávarútvegi rímar vel við áherslu á tækniþróun og áherslur ferðaþjónustunnar smellpassa við uppbyggingu skapandi greina af öllu tagi. Það er með því að stuðla að hagstæðu rekstrarumhverfi allra þessara greina sem við náum árangri. Ekki með því að etja þeim saman.

Góðir landsmenn. Í gær undirritaði ég fyrir hönd íslenska ríkisins fjárfestingarsamning við þýska félagið PCC vegna byggingar og reksturs kísilvers í landi Bakka við Húsavík, með framleiðslugetu upp á 33 þús. tonn af kísilmálmi á ári. Undirritun samningsins er mikilvægur liður í því að tryggja að fjárfestingin geti orðið að veruleika. Ég vil þó ítreka að endanleg ákvörðun um byggingu verksmiðjunnar hefur enn ekki verið tekin en með þessum samningi eru þeir þættir sem snúa að stjórnvöldum gagnvart verkefninu frágengnir. Gangi áformin eftir er stefnt að því að framleiðsla kísilmálms hefjist á árinu 2016 en að framkvæmdir geti hafist á fyrri hluta næsta árs.

Sem stendur er á vettvangi ráðuneytisins verið að fara yfir forsendur nokkurra nýfjárfestingarverkefna þar sem óskað hefur verið eftir gerð fjárfestingarsamnings. Ég er því vongóð um að á næstu mánuðum og missirum verði undirritaðir fleiri samningar um verkefni sem komi til með að hafa jákvæð áhrif fyrir vöxt í íslensku atvinnulífi. Þá bind ég vonir við að fyrirætlanir um byggingu álvers í Helguvík nái fram að ganga en ríkisstjórnin stendur heils hugar að baki þeirri framkvæmd eins og margítrekað hefur verið. Staðfesta PCC um að ráðast í uppbyggingu á Húsavík eru góð tíðindi og vonandi upptakturinn að enn frekari atvinnuuppbyggingu á Íslandi.

Góðir landsmenn. Á undanförnum vikum og mánuðum hef ég heimsótt fjöldamörg nýsköpunar- og sprotafyrirtæki til að fræðast um starfsemi þeirra og hlusta á forsvarsmenn þeirra um það hvaða aðgerðir hins opinbera hafi reynst árangursríkar og hvar úrbóta sé þörf. Niðurstaða mín er sú að víða sé að finna vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi og að hið almenna stuðningsumhverfi sem hér hefur verið byggt upp gagnist almennt vel.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að markmið mitt og leiðarljós í embætti verður að efla það sem virkar og laga það sem er bilað í umgjörð atvinnulífsins. Ég vona svo sannarlega að við getum sameinast um það markmið, við sem eigum sæti hér á hinu háa Alþingi.