143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka þá spurningu mína til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort ekki þurfi heimildir í fjárlögum til að nýta margumtalað svigrúm til almennra skuldaniðurfellinga til þeirra heimila sem skuldug eru. Þarf ekki heimildir í fjárlögum til að fara út í þær aðgerðir? Ef þær heimildir koma ekki inn í fjárlög 2014 verður þá eitthvað af þeim á þeim tíma?

Þá vil ég líka ítreka fyrri spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari óvissu. Nú halda allir að sér höndum og óvissan verður til þess að menn fara ekki út í fjárfestingar. Það hefur kostnað í för með sér fyrir öll heimili, ekki bara skuldug heimili.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra út í áætlun um lækkun vaxta ríkissjóðs um 10,7 milljarða sem fram kemur að eigi að fá fram með því að breyta skilmálum á láni til Seðlabanka Íslands. Ég viðurkenni að ég átta mig ekki alveg á því. Er þetta bókhaldsleg aðgerð? Hefur hún síðan áhrif á arðgreiðslur Seðlabankans til ríkissjóðs? Hvernig virkar þessi aðgerð? Fara þarna fjármunir á milli eða er þetta bókhaldstrix?