143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um að óvissa sé af hinu slæma og þess vegna er unnið hörðum höndum að framgangi þeirra verkefna sem rætt var um í þingsályktun sem samþykkt var á sumarþingi vegna aðgerða fyrir heimilin. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þegar að því kemur að grípa til sérstakra ráðstafana sem snerta fjárveitingar úr ríkissjóði þarf til þess heimild í fjárlögum.

Varðandi skilmála skuldabréfsins sem í upphafi var lagt til til að byggja upp eigið fé Seðlabankans þá þykir ekki ástæða til þess að ríkissjóður haldi áfram að greiða háar fjárhæðir til Seðlabankans sem hefur frá hruni byggt upp gríðarlega sterka eiginfjárstöðu. Ríkissjóður hefur á undanförnum árum greitt í vexti og verðbætur rúma 70 milljarða til Seðlabankans og eigið fé hans er núna í kringum 100 milljarðar.

Ef það væri svo að ríkissjóður og Seðlabankinn væru gerðir upp í einni samstæðu almennt mundi þessi skilmálabreyting í sjálfu sér engin áhrif hafa. Hins vegar er það ekki þannig að menn líti almennt á uppgjör ríkissjóðs og Seðlabankans sem eina heild. Af þeirri ástæðu leggjum við áherslu á það að ríkissjóður sleppi ekki frá sér fjármunum umfram það sem þörf er fyrir í einstökum stofnunum ríkisins eða eftir atvikum sjálfstæðum aðilum eins og Seðlabankanum til þess að hin raunverulega rekstrarstaða ríkissjóðs sé skýr í fjárlögum. Þetta bætir í sjálfu sér ekkert stöðuna ef við værum að gera upp Seðlabankann og ríkissjóð sem eina heild en við gerum það einfaldlega ekki. Það skiptir máli að ríkissjóður sé gerður rétt upp og ríkisreikningurinn endurspegli raunverulega stöðu ríkisins (Forseti hringir.) og þörfina fyrir fjárveitingar úr ríkissjóði (Forseti hringir.) til annarra aðila.