143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er gamalkunnug umræða um áhrif af skattbreytingum. Mér finnst meginatriðið vera það, þegar við horfum á breytingar á tekjuskattinum í miðþrepinu og menn reikna sig til þeirrar niðurstöðu að þeir sem hæstar tekjurnar hafa hafi upp úr því flestar krónurnar, að gera sér grein fyrir því að þeir sem hæstar tekjurnar hafa greiða eftir sem áður hæst hlutfall af tekjum sínum og flestar krónur í skatt. Fyrir þá sem lægri tekjurnar hafa skipta fleiri aðgerðir máli en sú sem hér er gerð að umtalsefni.

Það skiptir t.d. máli að ríkisstjórnin hyggst láta ganga fram það sem segir í lögum að persónuafsláttur hækki í samræmi við vísitölu neysluverðs. Hann mun þess vegna hækka úr 48.485 kr. í 50.037 kr. sem er hækkun um 3,2%. Skattleysismörkin eru rétt um 130 þús., þau fara í 134.074 kr. Má ég minna á að í tíð síðustu ríkisstjórnar var þessu sleppt um áramótin 2009/2010, ef ég man rétt, frekar en árið þar á eftir. Því var sleppt að láta skattleysismörk og persónuafslátt fylgja verðlagi, sem sérstök hagræðingaraðgerð. Hún kom sérstaklega illa við þá sem lægstar höfðu tekjurnar. Þetta samhengi hlutanna þurfum við að hafa í huga þegar við ræðum um áhrif skattkerfisins og breytinga á því.

Varðandi framtíðina þá hef ég gert grein fyrir því að ég vil taka út áhrif skattkerfisins og bótakerfanna heilt yfir á heimilin, jaðarskattaáhrif og annað slíkt. Mín sýn er sú að við drögum (Forseti hringir.) úr fjölda skattþrepanna og einföldum kerfið til mikilla muna.