143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Skattkerfið með einu skattþrepi eins og áður var hefur í raun og veru í för með sér óendanlega mörg skattþrep þegar tekið er tillit til persónuafsláttarins. Skattleysismörkin hækka nú, það er ekki rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að það hafi verið lögbundið allt síðasta kjörtímabil. Það var lögbundið þegar kjörtímabilið hófst að persónuafslátturinn ætti að fylgja verðlagi en þá tengingu afnam fyrrverandi ríkisstjórn sem sérstaka hagræðingaraðgerð þótt hún vildi reyndar aldrei kannast almennilega við það í umræðunni. Fyrir kosningar var persónuafslátturinn tengdur vísitölunni að nýju og það gengur fram á næsta ári. Með því að persónuafslátturinn og skattleysismörkin hækki hefur kerfið áhrif varðandi innbyrðis skiptingu tekna á milli sveitarfélaga og ríkisins einnig.

Nú er það þannig að skattleysismörkin gagnvart ríkissjóði eru að nálgast 220 þús. Það er ekki fyrr en fólk er komið upp í um 220 þús. kr. í laun sem ríkissjóður fær til sín einhverjar skatttekjur. Ef við mundum taka tekjuhópana og skipta þeim í tíundir, í tíu hópa, mundum við fljótt sjá þegar tekið hefur verið tillit til bótakerfanna, vaxtabóta- og barnabótakerfisins, að lægstu 50% í tekjuhópum eru nettó ekki að greiða ríkinu neinn skatt. Þau greiða ýmist engan skatt eða eru að fá til sín bætur umfram það sem greitt er í tekjuskatt á hverju ári.

Þetta heildarsamhengi hlutanna tel ég gríðarlega mikilvægt að við ræðum af yfirvegun hér í þinginu. Mín sýn er sú að við mundum geta gert það með því að taka saman upplýsingar um áhrif skatta og bótakerfanna á heimilin og einstaklinga og velt fyrir okkur (Forseti hringir.) þróuninni sem hefur átt sér stað undanfarin ár (Forseti hringir.) og að sú umræða gæti farið fram án þess að fyrir lægju (Forseti hringir.) tillögur til mikilla breytinga.