143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar tækjakaupin voru skoðuð á Landspítalanum fyrir síðasta fjárlagafrumvarp lá undir áætlun sem unnin var af spítalanum um hvað þyrfti að gera í bráð og lengd hvað tækjakaupin varðar. Hún lá undir þegar áætlun var gerð fyrir næstu ár. Nú er fallið frá þeirri áætlun sem unnin var af starfsmönnum Landspítalans. Hér er boðuð einhver önnur áætlun sem kannski einhverjir aðrir eiga að vinna. Ég þekki það ekki, en áætlunin var að minnsta kosti til þegar fjárlögin voru samþykkt hér fyrir árið 2013.

Hæstv. ráðherra verður tíðrætt um veiðigjaldið og vill réttlæta þá stefnu sem hægri stjórnin tók og þau forgangsmál hvað það varðar sem hún lagði fram á sumarþinginu. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að reyna að finna sáttaleið. Sú sem hér stendur mun leggja fram þingsályktunartillögu í þá veru til að reyna að finna samfélagslega sátt um að taka gjald af sérleyfunum sem þjóðin tekur fyrir auðlindir sínar.

Það hefði svo auðveldlega verið hægt að koma til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki í útgerð með breytingum á því frumvarpi sem var til umfjöllunar í vor, en sú leið var ekki valin. Sú leið var valin að gefa umtalsverðan afslátt á veiðigjöldum (Forseti hringir.) til útgerðarinnar.