143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt; veiðigjöld á stærri útgerðarfyrirtæki voru hækkuð á sumarþingi, þau voru lækkuð á minni útgerðirnar. Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að heildartekjurnar af veiðigjaldinu eru undir því sem fyrri ríkisstjórn áformaði að taka á árunum 2013 og 2014, en hún tók hins vegar mun lægri gjöld en verða tekin á næsta ári, fyrri hluta kjörtímabilsins.

Varðandi Landspítalann. Ég er hér með skýringar við nefndarálit fjárlaganefndar frá því fyrir ári. Hér segir vegna Landspítalans:

Tæki og búnaður: Gerð er tillaga um 600 millj. kr. tímabundna fjárheimild í eitt ár til kaupa og endurnýjunar á tækjabúnaði á Landspítalann.

Það þýðir ekkert að koma hér og segja að tekin hafi verið ákvörðun um framlög til margra ára. Tímabundin ákvörðun gilti í eitt ár. Þetta kemur til viðbótar við það sem þegar var gert ráð fyrir í fjárlögum til tækjakaupa fyrir Landspítalann. Það vil ég að sé á hreinu og til grundvallar umræðunni. En það breytir því ekki að ég og hv. þingmaður erum sammála um að það virðist augljóst að það er þörf fyrir frekari fjármuni til tækjakaupa á Landspítalanum á næstu árum. Það er bara ekki hægt að halda því fram að þessi ríkisstjórn hafi gripið til einhverrar sérstakrar ráðstöfunar varðandi þetta framlag vegna þess að það var fyrri ríkisstjórn sem ákvað að það væri bara tímabundið til eins árs.

Ég verða að segja varðandi stuðning við framhaldsskóla, sem komið var inn á í ræðu hv. þingmanns, að það er ekki rétt að dregið sé sérstaklega úr rekstrarframlögum til framhaldsskólanna. Það er hins vegar þannig að tímabundið átak vegna atvinnuleysisins er að renna sitt skeið. Og já, við verjum þá grunnreksturinn en við teljum að það sé kominn tími til þess, m.a. í ljósi minna atvinnuleysis, að draga úr stuðningi við önnur tímabundið átök. Það er enginn niðurskurður í kennslu á háskólastiginu, það er niðurskurður í rannsóknunum (Forseti hringir.) en það er enginn niðurskurður í kennslunni.