143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki áhuga á því að þrasa við hæstv. ráðherra en vil þó segja til þess að hafa það á hreinu og til grundvallar umræðunni að það er til áætlun um nauðsynleg tækjakaup fyrir Landspítalann og það er ekki farið eftir þeirri áætlun í þessu fjárlagafrumvarpi. Því verður væntanlega breytt.

Ég náði ekki áðan að svara spurningum hæstv. ráðherra um auðlegðarskattinn. Það er rétt að gallar eru á þeim skatti og ég talaði um það í minni ráðherratíð að hann yrði ekki endurnýjaður, en þá var undir ríkisfjármálaáætlun sem gerði ráð fyrir að við tækjum hér inn beinar tekjur af auðlindum þjóðarinnar, mun hærri en gert er ráð fyrir í þessu fjárlagafrumvarpi. Það var einnig gert ráð fyrir tekjum af neysluskatti af þeim sem nýta sér hótelgistingu. Hvort tveggja er búið að draga niður. Þegar auðlegðarskatturinn er tekinn til viðbótar og við erum í brýnni þörf fyrir að ná endum saman og hefja niðurgreiðslu skulda, eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra fyrr í dag, verðum við að skoða þetta allt saman í samhengi.

Vissulega var raforkugjaldið tímabundið en annaðhvort framlengjum við það eða tökum aðra tekjustofna til þess að halda ríkisfjármálaáætluninni. Ef ég mætti velja mundi ég velja að halda raforkuskattinum inni sem stóriðjan greiðir að mestu. Það er stóriðjan, það er útgerðin og það er ríka fólkið (Forseti hringir.) sem stendur hjarta þessarar ríkisstjórnar næst.