143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu þar sem hún fór víða um. Það eru þó nokkrir hlutir sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í.

Nú hefur verið mikil umræða um skatta og uppleggið hjá hv. þingmanni og stórum hluta stjórnarandstöðunnar er að allar þær breytingar sem gerðar séu snúi að því að það sé afsláttur af sköttum. Ég hlýt því að spyrja: Ef það er rétt skilið, af hverju var síðasta ríkisstjórn þá með afslátt fyrir ríkasta fólkið sem er í samskiptum við Ísland, sem eru erlendir kröfuhafar, upp á hvorki meira né minna en 44 milljarða? Ef það er rétt túlkun, af hverju tókuð þið þá þetta svakalega ríka fólk sem er með miklu meiri eignir en þeir Íslendingar sem við þekkjum og vitum um og gáfuð því afslátt upp á 44 milljarða yfir kjörtímabilið?

Annað sem kom fram var að hv. þingmaður sagði að verið væri að taka á hagstjórnarmistökum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég vildi þá fá að vita hjá hv. þingmanni hvort sú ríkisstjórn sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn voru í frá 2007–2009 hafi ekki gert nein hagstjórnarmistök. Það væri áhugavert að fá svar við því.

Sömuleiðis varðandi það sem snýr að gjaldtöku á sjúklingum þá vekur það athygli að mikil umræða hefur verið um svokölluð legugjöld hjá hv. stjórnarandstöðu sem var í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og stórjók gjöld á sjúklinga, m.a. á Landspítalanum. Hlutfallslega hafa gjöld á sjúklinga aldrei verið hærri en þá. (Forseti hringir.) Mér finnst ekki alveg vera samhljómur, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) í þessum málflutningi.