143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki ofsögum sagt að eftir þessu fjárlagafrumvarpi hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Kosningaloforðin voru á heimsmælikvarða og stjórnarflokkunum varð tíðrætt um að þeir gætu og mundu gera alla hluti á allt annan og betri hátt en fyrri ríkisstjórn. Þetta fyrsta frumvarp ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks boðar afturhvarf til fortíðar, grjótharðrar hægri stefnu og ljóst að horfið er frá árangursríkri stefnu fyrri stjórnar í ríkisfjármálum.

Hér á að fylgja nánast hreinræktaðri niðurskurðarstefnu sem reynsla undanfarinna ára í Evrópu hefur sýnt að gerir illt verra. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir raunverulegum afgangi af rekstri ríkissjóðs á næstu þremur árum. Svigrúm til að greiða niður skuldir ríkissjóðs verður því ekkert og enn síður hægt að hefja nauðsynlega uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu, menntakerfinu og innviðum samfélagsins. Það má með sanni segja að hér sé lagt af stað með allt öðrum hætti en fyrri ríkisstjórn gerði.

Virðulegi forseti. Við þessa 1. umr. er eðlilegt að fara aðeins yfir stóru línurnar í fjárlagafrumvarpinu sem segir til um hvernig framtíðarsamfélag sjálfstæðis- og framsóknarmenn sjá fyrir sér að verði hér. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulegum samdrætti í opinberum fjárfestingum sem teknar voru að aukast á ný frá árinu 2012 eftir að hafa verið í sögulegu lágmarki. Fram kemur að hætt verði við stórar byggingarframkvæmdir eða þeim frestað, áherslur fyrri ríkisstjórnar eru sagðar vera gæluverkefni og er þá einkum vitnað til þeirra markmiða að auka fjölbreytni og nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Það væri áhugavert fyrir núverandi ríkisstjórn að lesa þá úttekt sem gerð var á skapandi greinum og sýndi svo ekki varð um villst að þær standa jafnfætis áliðnaðinum í dag og líklega betur. Frumvarpið gerir ráð fyrir miklum niðurskurði á framlögum til rannsókna og tækniþróunar og stuðningi við ferðaþjónustu og hinar skapandi greinar. Að auki er dregið úr sérstökum stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki sem skipt hafa sköpum á undanförnum árum. Hins vegar er kostnaðarauki við ríkisstjórn 23%, eða hækkun upp á 45,7 milljónir, vegna fjölgunar ráðherra og aðstoðarmanna ráðherra. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum framlögum er tengjast vanda skuldsettra heimila og þaðan af síður sérstökum skuldaleiðréttingasjóði sem forsætisráðherra hefur orðið tíðrætt um. Er nema von að maður spyrji sig um forgangsröðun?

Í frumvarpinu kemur einnig fram að mikilvægt sé að auka umsvif í hagkerfinu, auka hagvöxt og samhliða halda jafnvægi milli tekna og útgjalda ríkissjóðs. Sé það gert megi losna úr þeirri gildru stöðnunar sem efnahagslífið er sagt vera að festast í. Þrátt fyrir þetta boðar fyrsta frumvarp Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks afar harkalegan niðurskurð upp á 12 milljarða og að hætt verði við flest þau verkefni sem gert hafði verið ráð fyrir og mundu að öllum líkindum örva hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífinu.

Það er hins vegar virðingarvert að leggja upp með hallalaus fjárlög en ég hef ásamt fleirum efasemdir um að það gangi eftir og tel það markmið byggja á veikum grunni. Því miður er með þessu frumvarpi horfið frá blandaðri leið tekjuöflunar og útgjaldalækkunar sem fyrri ríkisstjórn markaði. Áherslan er nú á lækkun útgjalda, þ.e. 2/3 aðgerðanna eru niðurskurður á móti 1/3 í tekjuhlið. Það færir ríkisstjórnina nær þeim ríkisstjórnum sem hafa fetað leið niðurskurðarstefnu. Það er athyglisvert að sjá þegar kemur að tekjuöfluninni að bankaskatturinn hækkar úr 0,041% í 0,145% og er ætlunin að leggja hann á lögaðila í slitameðferð. Sá skattur á að skila um 10,6 milljörðum. Það er vonandi að það sé framkvæmanlegt, eins og hér var rætt áðan, nú þegar nokkuð liggur fyrir hver heildarstaða þessara þrotabúa er. Á sínum tíma þegar bankaskatturinn var innleiddur var ástandið þannig að ekki var hægt að áætla skattandlagið. Það verður forvitnilegt að sjá talsmenn einkaeignarréttarins færa rök fyrir því að lögmætar kröfur aðila í gjaldþrota bú séu skattlagðar.

Hafa þarf í huga að þetta er ekki framtíðarskattstofn og ljóst að eitthvað nýtt verður að koma til. Fjármálaráðherra hefur einnig ákveðið að viðhalda þrepaskattskerfinu en það hefur reynst mikilvægt við að auka tekjujöfnuð í samfélaginu. Eins og kom fram áðan eru um leið boðaðar breytingar á því til framtíðar.

Hin nýja ríkisstjórn nýtur þess í frumvarpinu að auðlegðarskatturinn sem fyrri ríkisstjórn lagði á skilar 9,4 milljörðum sem er um það bil upphæð greiddra barnabóta og orkuskatti upp á 1,2 milljarða á næsta ári þar sem þetta er innheimt eftir á og er svo að falla úr gildi.

Ekki fann núverandi ríkisstjórn hjá sér þörf til að framlengja þá skatta eða lagfæra til sanngjarnari vegar telji hún þess þörf. Til viðbótar gerir frumvarpið ráð fyrir 10 milljarða vaxtatekjum frá Seðlabanka Íslands sem jafngildir því að færa tekjur úr einum vasa í annan.

Lækkun á miðþrepi í tekjuskatti einstaklinga er góðra gjalda verð en skilar ekki miklu fyrir einstaklinginn í hverjum mánuði eins og ég fór yfir áðan. Við vinstri græn hefðum talið eðlilegt að byrja á því að lyfta þeim sem minnst hafa og ná ekki einu sinni upp í þetta seinna skattþrep. Það er líka vert að rifja það upp þegar við fjöllum um tekjuöflun ríkissjóðs að á sumarþingi afsalaði ríkisstjórnin ríkissjóði um 10 milljarða tekjum á ársgrundvelli með lækkun veiðigjalds og virðisaukaskatts á gistingu sem fjárlagafrumvarpið sýnir nú að er ávísun á vaxandi erfiðleika í ríkisbúskapnum.

Loforð sjálfstæðismanna um að fella niður virðisaukaskatt á barnafötum er ekki sjáanlegt í þessu frumvarpi þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi boðað slíkt, m.a. á sumarþinginu, og hann minntur á það í eftirminnilegu Kastljósi þriðjudagsins en þar mátti skilja ráðherrann þannig að Framsóknarflokkurinn hefði ekki viljað framkvæma það.

Einnota bleiur eru settar í lægra virðisaukaskattsþrepið og er það vel.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um hækkun barnabóta samkvæmt frumvarpinu. Þær taka ekki verðlagsbreytingum eins og líka var farið yfir áðan.

Það hefur einnig komið fram í umræðunni að hæstv. ráðherra vildi bæði hækka og lækka virðisaukaskattinn og þá er hann um leið væntanlega að boða hækkun á nauðsynjavörum og ekki fyrirséð um aðgerðir til þess að mæta því. Og enn er boðaður samráðshópur.

Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur augljóslega staðið vaktina fyrir sitt ráðuneyti þegar þetta frumvarp var samið þar sem halda á áfram að leiðrétta hlut aldraðra og öryrkja með því að draga úr skerðingum bóta og er það vel.

Einnig er viðhaldið endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna íbúðar- og frístundahúsnæði og átakið Allir vinna framlengt. Það þýðir þá væntanlega að fyrri ríkisstjórn gerði eitthvað gáfulegt.

Allt öðru máli gegnir um hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og skólakerfið. Lækkunin til Háskóla Íslands nemur 322 milljónum og Háskólans á Akureyri 23 milljónum. Nemendur háskóla eiga á móti að taka á sig hækkun á skólagjöldum sem nú verða 75 þúsund. Á sama tíma er gert ráð fyrir fjölgun nemenda sem þýðir aftur á móti aukið álag á kennara.

Fjárveiting til framhaldsskólanna er lækkuð um 642 milljónir á milli ára og eitt af því sem hætta á við er stækkun á verknámsstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands. Það fer ekki saman að tala á tyllidögum um þarfir atvinnulífsins er kemur að verknámi og standa svo ekki við að sinna því þegar tækifæri er til. Allir stjórnmálaflokkar voru í kosningabaráttunni sammála um að ekki væri hægt að ganga nær framhaldsskólunum og þeir yrðu að fá meira fjármagn til að geta haldið úti lágmarksstarfsemi. En nei, hér skal stefnt að því að rýra gæði kennslu þar sem fjölgun nemenda í hverjum bekk hlýtur að verða það sem koma skal.

Fjármagn til innleiðingar nýrrar námskrár sem er í leiðinni meðal annars til styttingar og hæstv. menntamálaráðherra hefur boðað finnst ekki, það eru engir peningar í það.

Að auki eru framlög vegna átaksins Nám er vinnandi vegur, þróunarsjóðs til eflingar starfstengdu námi og framlag til eflingar raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafa nánast þurrkuð út.

Þegar kemur að menningarmálum og skapandi greinum fallast mér hreinlega hendur, það er bókstaflega flest núllað út eða lækkað svo ekki er gerlegt að sinna þeim verkefnum.

Það samrýmist ekki því dásemdarlandi sem hæstv. forsætisráðherra sá fyrir sér hér í gærkvöldi og reyndar hafði ég á tilfinningunni að hann hefði ekki lesið fjárlögin, svo ólíkar áherslur birtust í stefnuræðu hans og í því stefnumarkandi frumvarpi sem við fjöllum um hér.

Mikið hefur verið rætt um Landspítalann og ekki vanþörf á. Frá Sjúkrahúsinu á Akureyri berast þær fréttir að því hafi verið komið á framfæri við stjórnvöld að 200 milljónir vanti í almennan rekstur til að komast yfir sársaukamörk og við blasi 150 millj. kr. halli á þessu ári. Það var staðfest við okkur fulltrúa fjárlaganefndar á fundi sem við áttum með stjórn sjúkrahússins um daginn.

Að auki hefur heilbrigðisráðherra boðað stórfellda sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem spara á 161 millj. kr. en eitthvað hefur ákvarðanatakan verið erfið þar sem ekki var hægt að koma þeim inn í fjárlögin og boðar hann breytingartillögu við 2. umr. fjárlaga. Mér leikur forvitni á að vita hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hefur haft samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög eða Samband íslenskra sveitarfélaga við þá ákvörðun sína þar sem bókanir í fundargerðum sveitarfélaga benda til annars.

Sjúklingaskattur eða gistináttaskattur er það sem vakið hefur mikla athygli í fjárlagafrumvarpinu og ekki óeðlilegt. Það er hálfhjákátlegt að á sumarþingi þótti eðlilegt að viðskiptavinum ferðaþjónustunnar væri sleppt við eðlilega og sanngjarna skattheimtu en nú skuli eiga að innheimta gistináttaskatt hjá sjúklingum. Fólk sem dvelur á sjúkrahúsum er sannarlega ekki þar vegna þess að það vilji það. Fólk er þar sökum veikinda sinna og vegna þess að það þarf að vera undir læknishendi. Það er sem sagt tillaga ríkisstjórnar hægri manna að rukka þann sem er verulega veikur í stað þess að innheimta skatta á fullfríska ferðamenn.

Fyrrverandi þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Álfheiður Ingadóttir, sá til þess að heimild til slíkrar gjaldtöku var tekin út úr lögum og því vona ég að þingið sjái að sér og samþykki ekki þá lagabreytingu sem til þarf til þess að þessi skattur verði að veruleika.

Hin pólitíska spurning vaknar hvort sjúklinginn sem þarf að greiða hærri gjöld vegna fjárlagafrumvarpsins muni meira um hverja krónu á móti þeirri lækkun sem útgerðarmaðurinn fær í arð.

Ánægjulegt er að sjá að hæstv. innanríkisráðherra hefur staðið vaktina fyrir sinn málaflokk. Niðurstaðan er í þeim anda sem myndaðist hér á lokadögum þingsins þegar rædd var greinargóð skýrsla um löggæsluna og hvaða úrbóta væri þörf. Hins vegar er á sama tíma fellt niður 25 millj. kr. framlag til slysavarnadeildarinnar Landsbjargar sem mér þykir óskiljanlegt. Þetta er sá hópur sem við köllum sífellt í þegar mikið bjátar á og allflestir félagar vinna sjálfboðastarf.

Í gær var lýst eftir landsbyggðarþingmönnum og ekki að ósekju. Á aðalfundi Eyþings sem ég sat um daginn ásamt forsætisráðherra fór hann yfir hugmyndir er varða byggðamál og því hefði maður ætlað að eitthvað birtist af þeim í þessu frumvarpi en því er alveg öfugt farið.

Sóknaráætlanir landshluta eru slegnar af. 96% niðurskurður, takk fyrir. Markmið sóknaráætlana fyrir Ísland er að mótuð verði heildstæð stefna fyrir landið í heild í þágu atvinnulífs og samfélags þannig að Íslands skipi sér aftur í fremstu röð í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum.

Gríðarleg vinna hefur farið fram hjá sveitarfélögum og öllu nærsamfélaginu á hverjum stað við margvísleg verkefni því tengdu og því er óskiljanlegt að svona lagað sé lagt til. Það verður líka áhugavert að heyra í hæstv. fjármálaráðherra á eftir á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þar sem hann verður væntanlega og vonandi spurður út í þessar aðgerðir gagnvart byggðum landsins.

Niðurgreiðsla húshitunar er lækkuð, jöfnun námskostnaðar, dreifbýlisstyrkirnir, 8,8 millj. kr. lækkun, flutningsjöfnun, þar er fjárveitingin felld niður og styrkir til innanlandsflugsins stórlækkaðir. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin ætli fram með þetta.

Í því sambandi væri áhugavert að rifja upp ræðu nokkurra núverandi stjórnarþingmanna er lúta akkúrat að þeim málum. Þeir fóru mikinn í þingsal þegar þau mál voru til umfjöllunar á síðasta kjörtímabili og í sjálfu sér vel. Þetta er nokkuð sem við viljum öll reyna að gera vel. En hér er snúið af þeirri leið sem hafin var. Það er mikilvægt að fólk velti fyrir sér þeim áhersluatriðum sem birtast í frumvarpinu og hvaða stefnumót liggur þar að baki. Þetta er sú pólitík sem fram undan er og samfélagið mun þurfa að lúta.

Við eigum eftir að fjalla rækilega um frumvarpið á næstu vikum. Ég ber þá von í brjósti að stjórn og stjórnarandstaða muni vega og meta hvað þurfi að endurbæta og gera betur. Það er okkar verkefni, enda ekkert plagg gallalaust og með því að rýna í frumvarpið til fjárlaga rýnum við í það til gagns og þá getum við bætt það. Það er verkefni okkar þingmanna að bæta samfélagið, bæta lög og þar á meðal að bæta þetta fram komna fjárlagafrumvarp.