143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til hamingju með fyrsta fjárlagafrumvarpið sitt. Ég efast ekki um að mikil vinna liggur að baki og góður hugur og metnaður fyrir hönd þjóðarinnar. Ég vil líka fagna því að á sama tíma eru lögð fram tekjuöflunarfrumvörp. Við í Bjartri framtíð studdum það að núna á kosningaári mundi þinghaldið hefjast 1. október en ekki annan þriðjudag í september eins og þingsköp gera ráð fyrir til þess einmitt að við fengjum þetta allt á sama tíma. Ég held að það sé mjög gott.

Ég vil líka leggja áherslu á það og styðja það heils hugar að lagt verði fram boðað frumvarp um fjárreiður hins opinbera þar sem lagðar eru til margar umbætur á öllu þessu ferli. Mér finnst til dæmis sú staða sem við þingmenn erum í núna ekkert sérstaklega góð, og hefur aldrei verið góð, þessi 1. umr. um fjárlög. Við vorum að fá þetta gríðarlega yfirgripsmikla og stefnumarkandi plagg í hendur í fyrradag. Til að umræðan gæti í einhverjum smáatriðum orðið skynsamlegri þyrfti að hafa þingið meira í ráðum við gerð fjárlaga þannig að kannski væri hægt að fá meira út úr 1. umr. En engu að síður er hægt að ræða ýmislegt.

Sumt er gott í fjárlögunum, annað slæmt að okkar mati í Bjartri framtíð. Ég ætla að nota þessa ræðu til að lýsa almennt viðhorfum okkar í Bjartri framtíð til þessa viðfangsefnis sem er tekjuöflun og útgjöld ríkisins í þeirri von að einhverjar þær vangaveltur sem spunnist hafa í okkar röðum verði veganesti ekki bara núna heldur líka til framtíðar.

Það fyrsta sem mér finnst að menn þurfi að átta sig á, og mér finnst vera rauður þráður í því að vera í stjórnmálum, líklega ekki bara á Íslandi heldur líka annars staðar, er að það er gríðarleg fjárþörf í samfélaginu. Mér finnst ég alltaf heyra að það vanti peninga. Þetta þarf að horfast í augu við. Lífeyrisgreiðslur hins opinbera munu vaxa á komandi árum og í kjölfar hrunsins höfum við þurft að fresta vegaframkvæmdum og viðhaldi á vegum. Alls konar stórar starfsstéttir hafa þurft að taka á sig meiri vinnu og nú kemur það fram í mikilli þreytu og það þarf að laga. Við erum með raforkuflutningskerfi sem þarfnast gríðarlegs viðhalds og líka í fjarskiptum. Heilbrigðiskerfið þarfnast auðsýnilega viðhalds og uppbyggingar sem kostar mjög mikið, menntakerfið hefur verið fjársvelt, löggæslan, dómstólarnir, slysavarnir, öryggismál, hitt og þetta sem er einfaldlega í gríðarlega mikilli og brýnni fjárþörf og það hefur verið á undanförnum árum eitt form af lántöku, nauðsynlegri lántöku held ég, að fresta ýmsum mjög mikilvægum verkefnum þarna. Menn þurfa að fara að átta sig á því að ekki er hægt að fresta því mikið lengur en það þarf líka að halda aftur af fjárþörfinni. Við stökkvum ekki á hvaða bolta sem er. En ég held til dæmis að í heilbrigðismálum viljum við ekki dragast aftur úr í kaupum á lífsnauðsynlegum lyfjum eins og við höfum gert á undanförnum árum með kerfisbreytingum í átt til meira afturhalds í lyfjainnkaupum. Þarna er ég að tala um mál sem ég held að varði alla Íslendinga mjög mikið, að við getum treyst því að við séum framarlega í lyfjainnkaupum og þarna er um stóran útgjaldalið að ræða sem þarf auðvitað líka að halda aftur af.

Hér er ég að tala um nauðsynlega innspýtingu á komandi árum bara til að komast á réttan stað, til að snúa af þessari braut þar sem vegir eru einfaldlega að drabbast niður, þar sem byggingar eru að drabbast niður. En við viljum líka bæta þjónustuna þannig að við viljum gefa eitthvað í. Við viljum betri háskóla, við viljum betri menntaskóla, við viljum betri grunnskóla, við viljum betri heilbrigðisstofnanir, við viljum heilsugæslu út um allt land þannig að það þarf líka að vera eitthvert sóknarhugarfar í þessu.

Hluti af fjárlagagerðinni snýst líka um að horfast í augu við mjög sárgrætilega fjárþörf sem er greiðsla af vöxtum, greiðsla vaxta og skulda, sem er mjög stór fjárlagaliður. Auðvitað á stefna í fjárlagagerð á öllum komandi árum að snúast um að greiða niður skuldir og við styðjum það að sjálfsögðu heils hugar og fögnum því að fjárlagafrumvarpið er hallalaust. Allt þetta verður svo að gera án þess að skattpína þjóðina. Við verðum að hafa stjórn á skattbyrðinni en mér finnst sú umræða vera svolítið yfirborðskennd. Auðvitað er það rétt, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir, að það að hækka skatta hækkar ekki alltaf tekjur. Ég er hjartanlega sammála því. En við megum heldur ekki falla í þá gryfju að halda að það að lækka skatta auki alltaf tekjur. Það er einhver meðalvegur þarna sem við verðum að feta.

Ég tek eftir því í Stefnu og horfum í frumvarpi til fjárlaga þá er einmitt farið yfir það, og segir hér á bls. 45 í þskj. 1 með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Að vissu leyti var íslenskt skattkerfi vel í stakk búið til að mæta þessum breytingum og þar með fyrir aukna tekjuöflun þegar efnahagsáfallið skall á, þar sem skatthlutföll voru lág og skattkerfið einfalt samanborið við hið alþjóðlega skattumhverfi.“

Einnig segir:

„Þróun skattkerfisins síðustu ár hefur því að miklu leyti mótast af kringumstæðum þar sem tekjuþörfin var mikil og brýn“.

Þessar tvær málsgreinar endurspegla það að skattar voru lágir þegar hrunið skall á, meðal annars var lægra stig virðisaukaskatts lækkað úr 14% í 7% á árinu fyrir hrun sem er svolítið eftirtektarverð aðgerð í sögunni þannig að hægt var að auka skatta aðeins, það var ráðrúm til þess. Sumir eru tímabundnir og ég verð að gera athugasemd við það að í þingskjalinu segir að svigrúm hafi verið til að auka þessa skatta aðeins af því að „tekjuþörfin var mikil og brýn“ — og ég verð að gera athugasemd við þessa notkun á sagnorðinu, ég mundi segja að hún sé mikil og brýn enn.

En það þarf líka að skoða hvernig gjöld skiptast réttlátt og það verður auðvitað svolítið til umræðu í tilefni af þessu fjárlagafrumvarpi. Þar finnst mér mikilvægt, ef við tölum t.d. um gjöld í heilbrigðisþjónustu, að við skoðum stöðuna, hvernig hún er núna. Ég held að það sé sanngjarnt að átta sig á því að það er gjaldtaka í heilbrigðisþjónustu, við erum að taka gjöld. Ég held að við verðum að gera þá kröfu að gjaldtakan sé þá réttlát og að við reynum eftir fremsta megni að láta sem mest jafnt yfir alla ganga. Ég mundi hvetja til þess að sú vinna færi fram við að skilgreina hvernig gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu getur orðið sem réttlátust áður en við förum í legugjöldin núna.

Björt framtíð hefur, vegna erfiðrar stöðu ríkisfjármála, hvatt til róttækni. Við teljum mjög brýna þörf á því að forgangsraða í ríkisrekstrinum, að það þurfi að fara í þá vinnu. Við þurfum að skoða að nýju röksemdir fyrir stórum útgjaldaliðum. Erum við að verja 12 milljörðunum sem fara í landbúnaðarkerfið rétt, og með sem mestum árangri? Mundum við verja þeim svona núna? Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er áætlað að draga til baka mjög mikinn stuðning við greinar í atvinnulífinu sem geta vaxið mjög og eru ekkert bundnar frá náttúrulegum framleiðslutakmörkunum eins og til dæmis landbúnaður. Væri skynsamlegt að nota einhvern af þessum 12 milljörðum til að styðja þannig greinar sem gagnast líka byggðinni úti um allt land? Við þurfum að skoða hlutina frá grunni. Við þurfum að skoða opinberu stjórnsýsluna. Erum við að nýta þá peninga vel í þessu litla landi með þessi mörgu ráðuneyti? Við segjum stundum í Bjarti framtíð: Af hverju er þetta ekki bara í einni byggingu? Af hverju minnkum við ekki yfirstjórnina? Stigin eru skref í fjárlagafrumvarpinu sem eru góð með því að fækka sýslumönnum og sameina lögregluumdæmi og skapa þar með svigrúm til að bæta almenna löggæslu. Við hvetjum til að þetta sé gert á fleiri sviðum. Það hljómar sem ágæt tónlist í okkar eyrum þegar talað er um að fara inn í heilbrigðiskerfið og reyna að endurskipuleggja það í þágu betri framleiðni, hagræðingar. Stórar spurningar blasa við í menntakerfinu. Af hverju útskrifum við stúdenta tveimur árum seinna en í nágrannalöndunum? Væri þeim peningum sem við verjum í þau tvö ár ekki betur varið í að bæta þjónustuna í menntakerfinu, gera skólana betri? Í heilbrigðismálum er náttúrlega margrædd nauðsyn þess að byggja upp heilsugæslu til að koma í veg fyrir að fólk leiti í dýr úrræði. Þetta sparar til langs tíma og þarfnast náttúrlega fjárfestinga. Við erum, held ég, að mörgu leyti á sömu línu og ríkisstjórnin í þessu máli þó að þær áherslur sjáist ekki í frumvarpinu núna. En það er gefið í skyn að stefnt sé í þessa átt.

Við viljum fjárfesta. Það er ákaflega mikilvægt. Mér finnst vera tilviljunarkennd og svolítið annarleg rök fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að hætta við fjárfestingarstefnu síðustu ríkisstjórnar. Rökin eru eiginlega bara þau að síðasta ríkisstjórn hafi ákveðið þessa áætlun og þess vegna séum við hætt við hana. Það er gegnumgangandi í fjárlagafrumvarpinu að sú ákvörðun er tekin að hætta við ný verkefni sem síðasta ríkisstjórn ákvað. Það finnst mér ekki efnisleg ástæða. Mér finnst við þurfa að skoða hvern lið fyrir sig og taka tillit til breyttra forsendna í tekjuöflun og skoða hvort rök séu fyrir því að fara í þessar fjárfestingar, og ég held að svo sé. Ég held að sterk rök séu fyrir því að gefa í varðandi tækniþróunarsjóð, sterk rök fyrir því að gefa í varðandi kvikmyndagerð, grænan iðnað og skapandi greinar yfir höfuð. En það er svolítið lýsandi fyrir viðhorfið til þessarar uppbyggingar, sem ég held að sé mjög mikilvæg og mjög í anda þess sem skandinavískar þjóðir hafa gert, að í fjárlagafrumvarpinu, ég rak augun í það, er græna hagkerfið, með öllum þeim möguleikum sem það hagkerfi allt saman getur komið Íslendingum upp á, er komið undir lið með þjóðmenningu. Hvað er það? Ég skil þetta ekki alveg. Lýsir þetta einhverju viðhorfi til þess sem mögulega getur orðið stórkostlegur vaxtarbroddur í íslensku samhengi? Ég get ekki annað en óskað skýringa á þessu.

Annað sem mér finnst við þurfa að ræða í tengslum við fjárlögin — og taka þá umræðu opinskátt — er viðhorf okkar til tekna. Mér finnst stundum eins og hið opinbera, Íslendingar, samfélagið, vilji ekki tekjur. Tekjur eru grunsamlegar og þetta endurspeglast í umræðu um svo margt. Við í Bjartri framtíð lögðum á síðasta kjörtímabili til að arður úr bankakerfinu yrði notaður til fjárfestinga. Við bentum á að í bankakerfinu hefur safnast upp eigið fé og bankarnir þurfa í raun að greiða út arð. Ríkisvaldið á eitthvað rétt yfir 40% af fjármálakerfinu á Íslandi — og ég er að tala um arð, ekki eignasölu heldur arðinn og gríðarleg reiði varð á mörgum sviðum samfélagsins við þessari hugmynd. Bankarnir eru vondir, það má ekki taka peninga þaðan.

Við þurfum að geta rætt þessi mál á öðrum nótum en svona. Þetta eru peningar sem við getum nýtt til að fjárfesta, til að greiða niður skuldir og við þurfum að móta okkur stefnu í þessu fordómalaust. Við þurfum líka að ræða eignasöluna. Ríkið á gríðarlega mikið undir í bankakerfinu, nokkur hundruð milljarða. Stefna í þeim málum, sem er aðeins tæpt á í frumvarpi til fjárlaga, getur skipt sköpum um greiðslu skulda hins opinbera. Það gengur brösuglega að ræða arðinn af fiskimiðunum. Við rjúkum of mikið í það að lækka skatta, við erum alla vega að afsala okkur núna, bara á nokkrum mánuðum, 6 milljörðum með því að hætta að rukka ferðamenn og með því að fara í 0,8% lækkun á tekjuskatti. Þá 6 milljarða gætum við notað í annað. Við virðumst eiga í miklum erfiðleikum með að ræða mögulegar tekjur af orkusölu Landsvirkjunar þó Landsvirkjun hafi farið í gríðarlega mikla stefnumörkun á því sviði. Þar geta legið eitthvað um 40 milljarðar sem gætu komið í ríkiskassann og Svíar og Norðmenn eru að skoða þetta fordómalaust. Ég held að ef við færum í gegnum alla möguleika ríkisins og ég hef ekki tíma til að gera það akkúrat núna — móta okkur stefnu í erlendri fjárfestingu, gjaldtöku af ferðamönnum o.s.frv. — væri hægt að auka svigrúm ríkissjóðs, með langtímastefnumörkun, að núvirði um svona 100 milljarða á ári.