143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er samhljómur á milli okkar. Hv. þingmaður bendir réttilega á að á sumum sviðum eigi að borga mjög mikið. Þetta snýst um langveika. Þú getur verið langveikur þó að þú liggir ekki á spítala. Það er margir í þeirri stöðu. Og jafnvel þó að þú sért með krónískan sjúkdóm þar sem allt á að vera frítt, eins og krabbamein, fellur samt sem áður til alls konar kostnaður sem þú þarft að greiða vegna þess að það er ekki alltaf fyrir séð hvað gerist. Fólk er misjafnt, sjúklingar líka. Ég hef svolitla reynslu af þessu af því að það kom til mín kona á sínum tíma sem var dauðvona, sem var krabbameinssjúklingur. Hún hvatti mig áfram í þessu máli og fór yfir það með mér. Hún sagði: Þið verðið að breyta þessu því að jafnvel þó að hér eigi allt að vera frítt fyrir krabbameinssjúklinga er svo margt annað sem við þurfum að greiða en bara það sem snýr að lyfjunum og hinni hefðbundnu meðferð.

Ég er ánægður með að við ræðum þessa hluti, ég og hv. þingmaður, með málefnalegum og hófstilltum hætti því að það er það sem við þurfum að gera. Og uppleggið hjá hv. þingmanni er nákvæmlega það sama og það sem fram kemur í vinnu á vegum hæstv. heilbrigðisráðherra sem hv. þm. Pétur Blöndal stýrir nú.

Varðandi fóðursjóðinn tel ég rétt að það sé millifærður sjóður, þetta er eitt af því sem mælist inni í stuðningi Íslands við landbúnaðinn. Ég þekki þetta mál því að ég er búinn að berjast gegn því lengi, áður en ríkisendurskoðandi benti á að fella þyrfti þennan sjóð niður. Ég tel líka að við eigum að skoða hvort kerfið okkar sé þannig að við setjum þar í raun upp hindranir fyrir því landbúnaðurinn blómstri. Þetta snýst um opinber útgjöld og ég get verið sammála hv. þingmanni að við ættum helst að líta á þetta sem autt blað.

Við eyðum um efni fram og þó að mér heyrist að við séum sammála um hallalaus fjárlög er alveg ljóst að ekki má mikið út af bera. Ég tel því að við eigum að fara í þá vinnu núna að skoða hvernig við getum hagrætt enn frekar til að geta haldið (Forseti hringir.) uppi þeirri þjónustu sem við erum svo sannarlega sammála um að bjóða upp á hér á Íslandi.