143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er alltaf mjög athyglisvert að hlusta á umræður um fjárlög því að þær vilja oft fara út í það að þingmenn benda hver á annan eftir því hvorum megin við stjórnarlínuna þeir standa og kenna gjarnan hver öðrum um eða finna sér rök í því að segja: En af hverju gerir þú ekki svona og af hverju gerir þú ekki hinsegin? Þetta minnir mjög mikið á síðasta kjörtímabil líka. Ég held að við komumst ekkert áfram ef við höldum þessum umræðum á þeim nótum.

Fjárlög hverrar ríkisstjórnar fyrir sig verða alltaf umdeild. Það er bara þannig, það liggur í hlutarins eðli. Þetta er pólitík. Þarna kristallast pólitíkin og stefnan best, um það hvar á að verja peningunum og hvar á ekki að verja peningunum. Ég er að sumu leyti og í einhverjum liðum sammála ríkisstjórninni en ég er í öðrum liðum ósammála henni. Það er bara eðlilegt og þarf ekki að vera mikið drama um það.

Mig langar að byrja á að velta örstutt tveimur jákvæðum punktum sem mér finnst standa upp úr. Ég er mjög glöð að sjá að ákveðið hefur verið að leggja fram lyklafrumvarpið. Það mun skipta fólk miklu máli. Ég sá um að halda utan um lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur, fyrrverandi hv. þingmanns, síðasta kjörtímabil en því miður strandaði málið. Ég vona að það náist að velta því alla leið í gegnum þingið á þessu kjörtímabili og sem allra fyrst. Mér finnst líka gott að það hafi verið tekin ákvörðun um að setja á bankaskatt.

Mér finnst gott að heyra að hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson lofaði hér í dag að standa vörð um velferðarkerfið. Þá er spurningin: Hvernig á að gera þetta? Hvernig á að verja þá sem hafa það erfiðast? Það sem ég hef tekið eftir í umræðunum um yfirvofandi fjárlög, fyrir og eftir, er kvíði og ótti og óvissa hjá mjög mörgum einstaklingum úti í samfélaginu. Fólk sem er ekkert endilega í einhverjum flokksleikjum heldur bara venjulegt fólk sem er óttaslegið um hag sinn, fólk sem er búið að vera að berjast í bökkum, jafnvel löngu fyrir hrun — alltaf skal þetta fólk sem á sér kannski fáa málsvara þurfa að þjást mest.

Ég kem úr mjög litlum þingflokki og hef ekki haft nægilegan tíma til að kynna mér fjárlagafrumvarpið út af því að gjörvallur þingflokkurinn minn tók þátt í stefnuræðuumræðum hér í gær. Þegar ég kom heim seint í gærkvöldi setti ég inn færslu á Facebook og bað fólk um að skrifa mér og segja mér hvað því fyndist mikilvægast að ég mundi ræða í þessum umræðum, sér í lagi út frá hópum sem er aldrei talað um þar sem er kannski ekki um að ræða háar upphæðir en hefur samt mikil áhrif á lífsviðurværi fólks. Ég fékk alls konar svör, ég held að ég sé búin að fá um það bil 80 tillögur. Það sem vakti athygli mína er hvað þetta er fjölbreytt og hvað áhyggjurnar eru miklar. Ég veit að það hefur verið starfandi hópur sem fær tillögur um hvar megi skera niður og það væri þá ekki úr vegi að kalla saman hóp þingmanna sem tæki við tillögum um hvar mætti alls ekki skera niður. Það er einfaldlega þannig að sumir mega ekki við meiru.

Því hefur verið lofað að sú skerðing sem ellilífeyrisþegar og öryrkjar urðu fyrir strax í kjölfar hrunsins sem var eins konar staðfesting á því að þáverandi ríkisstjórn ætlaði að fara mjög vandlega eftir alþjóðagjaldeyrissjóðsprógramminu — þá skerðingu ætti auðvitað að vera búið að leiðrétta fyrir löngu. Það á að sjálfsögðu að vera forgangsmál því að það er eitt af loforðum þessarar ríkisstjórnar.

Ég er ekkert rosalega mikið fyrir talnareikninga og er langt í frá einhvers konar excel-manneskja þó að ég beri mikla virðingu fyrir excel-heilum en ég hef áhyggjur af skerðingum sem verða í heilbrigðis- og menntakerfinu. Ég hef miklar áhyggjur af því. Ég held að það sé mjög brýnt að við þingmenn, sama úr hvaða flokki við erum, finnum lausnir á þessu ástandi sem er mjög slæmt. Það er tónninn sem ég hef fundið í þeim kommentum sem ég hef fengið frá fólki. Það hefur svo miklar áhyggjur af þessu. Það er auðvitað smánarlegt og skammarlegt að við búum í þannig samfélagi þar sem við tökum þátt í að greiða skatta til samfélagsins að það kosti orðið fleiri hundruð þúsund að fara í krabbameinsmeðferð. Auðvitað er það skammarlegt en það er ekki lausn og gerir í raun og veru hvorki auðveldara né betra að leggja til að gistináttagjöld verði lögð á spítalavist. Ég held að við, ef við viljum, getum komið með tillögur að breytingum. Þetta fjárlagafrumvarpselement er eins og póker, þ.e. hvernig það er unnið. Það er látið eins og það eigi að skera meira niður en ætlunin er og svo er samið um það sem er umdeildast og yfirleitt er samið um að það fari burt. Ég vona að okkur takist að semja gistináttagjaldið á Landspítalanum burt því að þótt það væri raunsætt að leggja það á þá veldur það svo miklum óróa, ugg og kvíða að það er ekki réttlætanlegt. Það er alveg sama hve góð rök við komum með fyrir því að gera þetta, það er ekki réttlætanlegt. Ég held að við hljótum að geta fundið samhljóm um að bara taka ákvörðun strax í þessari umræðu um að slá það út af borðinu, það er engin skömm að því.

Ég velti líka fyrir mér og hef pínulitlar áhyggjur af alls konar málefnum, eins og einu sem kona skrifaði mér um í gær sem hefur áhyggjur af því að ekki eigi að lengja fæðingarorlofið og segir, með leyfi forseta:

„Eins og samfélagið er í dag nær þetta ekki saman. Núna er dóttir mín orðin sex mánaða en þar sem við hjónin erum gift þá á ég ekki rétt á niðurgreiðslu á dagmömmu fyrr en hún verður níu mánaða. Þarna er þriggja mánaða gap sem við getum alls ekki brúað.“

Það eru alls konar svona „senaríó“ sem munu alltaf verða í samfélaginu þar sem fólk er sett í þannig stöðu að það sér ekki fram á að geta lifað eðlilegu lífi og sérstaklega núna þegar svo mikið hefur dunið á fólki. Við vitum að mjög margir tóku út séreignarsparnað og annað og það eru svo margir komnir út á ystu nöf. Ef við höldum áfram að ýta fólki lengra og fram af bjargbrúninni þá fer það bara. Það eru svo margir að fara.

Síðan er það prógrammið með úrræði fyrir atvinnulausa, úrræði sem heppnuðust mjög vel. Ég er rosalega fegin að eitthvað var gert í því því að það er ekki neitt verra í samfélagi en að fólk festist í bótakerfinu og við erum blessunarlega laus við það, að fólk líti á það sem einu leiðina til að geta lifað af að vera á atvinnuleysisbótum eða eitthvað slíkt, að það verði einhvern veginn fjölskylduhefðin. Þetta hefur þróast svona úti í Bretlandi, það er náttúrlega mjög sýnilegt þar, og svona hefur þetta þróast úti um víðan völl.

Við erum með gríðarlega stór mennta- og heilbrigðiskerfi hér sem mega ekki við meiri niðurskurði af því að þau eru orðin svo stór. Ég er svo hlessa á því að fráfarandi ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn hafi ekki tekið ákvörðun um að fara í mjög róttækar aðgerðir til að endurhugsa menntakerfið. Nú erum við að mennta fólk, það er dýrt, og síðan fer þetta fólk út á vinnumarkaðinn og það er ekki til nein vinna sem hæfir menntuninni. Hvaða rugl er það?

Eins og ég vék að áðan er orðið svo dýrt að fá þjónustu í heilbrigðiskerfinu okkar sem fólk telur sig greiða fyrir með sköttunum sínum að það sleppir því jafnvel. Það er líka gríðarlega dýrt þegar fólk fær ekki rétta greiningu á sjúkdómum sínum af því að það er svo mikil mannekla á spítölunum.

Ég sé í tillögum ríkisstjórnarinnar að endurskoða á menntakerfið að einhverju leyti og ég býst við að að hluta til þýði það að stytta eigi nám, það verði normið í menntaskólunum. Það þarf tiltölulega miklar og róttækar tillögur til að við náum utan um þau stóru göt sem munu alltaf myndast í fjárlögum ef við höldum áfram á þeirri leið sem við erum á.

Í þessu fjárlagafrumvarpi er ekki neitt af því sem fólk hélt að það mundi fá. Það er ekkert sem tryggir að farið verði í að bæta þeim sem urðu fyrir forsendubresti þann forsendubrest. Ég sé það að minnsta kosti ekki í þessu frumvarpi. Mér þætti mjög vænt um ef einhver sérfræðingur í fjárlögum hjá stjórnarliðinu mundi útskýra fyrir mér hvort hægt sé að flytja til slíkt fjármagn án þess að það sjáist á fjárlögum eða hvort það muni koma inn á fjáraukalög eða hvernig þetta virkar.

Mig langaði líka undir lokin að benda þingmönnum á að í inngangi samantektar upplýsingasviðs Alþingis um fjárlagafrumvarpið er lýst yfir áhyggjum af ógagnsæi í ríkisfjármálum. Þar kemur meðal annars fram að samspil fjárlaga fyrir næsta ár og frumvarp til fjáraukalaga yfirstandandi árs sé ekki nógu gott þar eð lokatölur yfirstandandi árs liggja ekki fyrir þegar bæði frumvörpin eru lögð fram og samþykkt. Því kann að vera að byggt sé á talnagrunni sem stenst ekki þegar upp er staðið. Þá er einnig lýst áhyggjum af því að fyrirsjáanleg útgjöld séu ekki sett inn í fjárlög heldur sé heimildin sótt í fjáraukalögin.

Svo segir í innganginum, með leyfi forseta:

„Slík vinnubrögð valda því að erfitt getur verið fyrir þingmenn að fá yfirsýn yfir ríkisfjármálin og átta sig á stöðu mála. Upplýsingaefni um fjárlögin er einnig sett fram á þann veg að það auðveldar hvorki úrvinnslu né yfirsýn (fjarlog.is) en framsetning fjármálaráðuneytisins á talnagögnum tengdum frumvarpinu hefur ekki fylgt eftir þróun í upplýsingatækni á þessari öld.“

Nú er enginn ráðherra lengur í salnum sem mér finnst bagalegt. Þegar fulltrúi frá einum af stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi tjáir sig um fjárlagafrumvarpið og hefði ef til vill viljað koma með spurningar þá finnst mér bagalegt að fjármálaráðherra sé ekki í húsinu. Við erum jú að ræða tillögu hans og mér finnst þetta ákveðin vanvirðing við þingmenn og vil beina þeirri vinsamlegu beiðni til forseta að tryggja að þegar verið er að ræða í 1. umr. um fjárlög að fjármálaráðherra sé á staðnum. Mér finnst það mjög mikilvægt. Við megum ekki leyfa þannig hefð að skapast að það sé bara í lagi að ekki sé nokkur ábyrgðaraðili frá ríkisstjórninni hér í húsinu. Mér finnst það fullkomlega óeðlilegt.

Ég vona að við náum að bæta það sem fólk hefur mestar áhyggjur af í þessum fjárlögum, ég vonast virkilega til þess. Píratar munu koma með tillögur og vera í góðri samvinnu eins og við höfum heitið varðandi þá málaflokka sem við erum sammála um og að sjálfsögðu verðum við með viðspyrnu þegar við erum ósammála. Þannig gengur þetta bara fyrir sig á þessum vinnustað.