143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014. Það er auðvitað þannig þegar maður fær slíka bók að hægt er að nálgast umræðuefnið frá mörgum sjónarhólum. Það er hægt að ræða það út frá þeirri gagnsemi sem þau fjárlög hafa fyrir einstaklinga og þjóðfélagið í heild, með hvaða hætti er hægt að mæta þeim óskum og þeim væntingum sem þjóðin hefur. Það er líka hægt að skoða það út frá þeim loforðum og væntingum sem hafa verið skapaðar af núverandi ríkisstjórn. Það er hægt að skoða það út frá stjórnarsáttmálanum og því sem þar hefur verið lofað, í stefnuyfirlýsingunni.

Ég ætla í upphafi að fagna því að núverandi ríkisstjórn skuli stefna áfram að því að reyna að ná hallalausum fjárlögum. Það hefur verið baráttumál okkar við mjög erfiðar aðstæður og við vissum að hverju við stefndum, við vissum hvert við vorum að fara; að breyta vöxtum í velferð. En spurningin er hvernig sú leið er vörðuð, hvernig við förum að því, hversu langan tíma við tökum til þess og hvaða forgangsatriði við höfum inni í fjárlögunum til þess að tryggja að vegferðin verði í lagi.

Ég ætla líka að segja í upphafi að það er fullt af jákvæðum hlutum í frumvarpinu. Það eru jákvæðar nýjar tekjuleiðir. Það eru hækkaðir skattar á bankana og fjármálaheiminn, og þar með á gömlu bankana, og það er aukið svigrúm á Landsbankann sem nú er í eigu íslenska ríkisins, skilar á þessum dögum 10 milljarða arði. En það sem er forvitnilegt er hvernig þeim arði er skipt og hvert hann er látinn fara.

Það er annað sem er svolítið merkilegt í því sem við höfum fengið að kynnast í kringum þetta fjárlagafrumvarp og það er umræðan sem var hér í gærkvöldi þegar hæstv. forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína. Maður les þá ræðu og síðan stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ber það saman við fjárlögin. Það kom mér á óvart að það er himinhrópandi bil á milli þessara tveggja þátta, þess sem forsætisráðherra boðaði og þess sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra boðaði með fjárlagafrumvarpinu. Það verður auðvitað okkar að reyna að fá skýringar á því hvers vegna það er svona. Hvers vegna er verið að tala um að hér eigi að efla menntun, það eigi að hlúa að nýjum atvinnugreinum, tæknigreinum hugbúnaðargreinum, skapandi greinum, á sama tíma og fjárlagafrumvarpið sker niður fjárlög til þeirra þátta?

Það er líka mjög sláandi þegar menn tala um að nú sé hafin endurreisn í heilbrigðiskerfinu. Það er engin viðbót í fjárlagafrumvarpinu umfram það sem var fyrir fram búið að ákveða og er heldur skorið af. Það er auðvitað mjög sláandi fyrir okkur sem erum að lesa.

Hæstv. forsætisráðherra talaði líka um það í ræðunni í gær að fjárfesting verði að aukast. Á sama tíma er verið að skera niður fullt af framkvæmdum sem horfðu til framtíðar, allt frá því að taka hið endurbætta eða nýja sjúkrahús Landspítalans, heilbrigðisstofnunina á Selfossi, endurbætur á stórri byggingu heilbrigðisstofnunarinnar í Stykkishólmi. Það er strokað út og menn ganga meira að segja svo langt að taka það fram að fjárveitingin í ár, 2013, verði skorin niður sem á ekki að vera í þessum fjárlögum.

Það hefur áður komið fram í ræðum annarra hv. þingmanna. Í ræðunni sagði hæstv. forsætisráðherra að á sviði menntamála verði lögð áhersla á að fjölga fólki með menntun í tækni- og iðngreinum. Hvar sér þess stað í fjárlagafrumvarpinu? Það segir einnig orðrétt: „skapa jákvæða hvata, hvata til að fjárfesta.“ Hvar sér þess stað í frumvarpinu?

Stuðningur við nýsköpun og rannsóknir, forgangsröðun í þágu heilbrigðiskerfisins, ég sagði það áðan. Styrkja innviði um allt land, heilbrigðisþjónustu, skólahald og opinbera þjónustu. Það er ekkert af því í fjárlagafrumvarpinu.

Ég ætla að hæla ríkisstjórninni fyrir það að stór hluti af því sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu er framhald á því sem fyrri ríkisstjórn hafði komið í gang. Það sem meira er þá byggja þeir svo mikið á fyrri ríkisstjórn að þeir nota það sem afsökun fyrir því að þeir leggi ekki á auðlegðarskatt að ríkisstjórnin hafi haft á því tímamörk hvenær ætti að fara yfir það mál aftur. (Gripið fram í: Afsökun?) Það er afsökun vegna þess að þeir segja að ekki þurfi að framlengja af því að búið var að taka ákvörðun um að gera það ekki.

Það er sjálfstæð ákvörðun hverrar ríkisstjórnar hvaða gjöld hún leggur á. Hún verður að svara fyrir það sjálf, hæstv. ríkisstjórn, þegar hún er að taka slíkar ákvarðanir en ekki að fela sig á bak við einhverja aðra slíka hluti.

Ég ætla að taka nokkur dæmi sem ég hef velt mikið fyrir mér hvort hefðu nokkurn tímann verið í framkvæmd ef við hefðum ekki tekið upp þær breytingar. Í fyrsta lagi gjaldfrjálsar tannlækningar. Fyrst þegar verið var að tala um að farið væri fram úr á fjárlagaliðum var talað eins og þarna væri baggi, einhver skuldbinding sem væri erfitt að standa við en menn hunskuðust til þess. Sem betur fer standa menn við þann samning. Þökk sé nýrri ríkisstjórn fyrir það.

Sama gildir um jafnlaunaátak. Eitt af því sem er erfitt í íslensku samfélagi er að horfa upp á það ár eftir ár og áratugi að verðmæti starfa í landinu er misskipt, þ.e. uppeldisstörf, heilbrigðisstarfsmenn, þeir eru verr launaðir en þeir sem eru í viðskiptalífinu. Þess vegna var tekið upp að fara með jafnlaunaátak inn á heilbrigðisstofnanir, 4,8% sem allar heilbrigðisstofnanir í landinu fengu. Það er inni í fjárlögunum áfram. Þökk sé ríkisstjórninni fyrir það.

Það er líka tvennt sem gerist núna í almannatryggingalögunum um næstu áramót í viðbót við það sem áður var komið, þ.e. að skerðingar vegna tekna lækka úr 45% niður í 38,35%. Sú ákvörðun var tekin af fyrri ríkisstjórn.

Sama gildir um hinn hlutann sem kemur inn í almannatryggingarnar um áramót sem er víxlverkanir, þ.e. samkomulag sem gert var á milli lífeyrissjóðanna og ríkisins um að hækkanir hjá lífeyrissjóðunum mundu ekki skerða bætur hjá almannatryggingum. Sú ákvörðun var tekin árið 2010 og annar hluti er að koma til framkvæmda um áramót. Það er aukningin hjá öldruðum og ellilífeyrisþegum, plús sú leiðrétting sem átti sér stað í sumar.

Ég verð að segja að þótt ég fagni því mjög kemur mér á óvart að menn skuli ekki standa við að taka allt til baka, fyrir utan það að menn lofuðu að gera það strax í sumar.

Ég get haldið áfram. Vaxtabæturnar sem voru stórauknar af fyrri ríkisstjórn eru áfram, að vísu ekki með verðbótum. Barnabæturnar hækkaðar um 24% eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á, þær halda áfram. Það verður komið til móts við barnafjölskyldur sem voru ein skörpustu skilaboðin á árinu 2013. Þrátt fyrir að menn hækki komugjald í heilsugæslunni um 20%, af því að það hækkar umfram allar verðlagshækkanir, er það ekki lagt á börn og ungmenni. Það var fært niður í núll á sínum tíma, þ.e. það eru engin komugjöld í heilsugæslu fyrir börn og ungmenni, því er haldið áfram. Það var að vísu ráðherra sem hét hæstv. ráðherra þá, Álfheiður Ingadóttir, sem tók það niður að lokum. (Gripið fram í: Nei.) Það kann að vera að það hafi áður verið búið að leggja þetta af en það var tekið niður aftur.

Ég ætla ekki að fara yfir einstaka þætti, ég hef engan tíma til þess, þetta er ekki nema 10 mínútna ræða sem ég fæ hér. Við fáum tækifæri til að ræða við ráðherra á næsta ári.

Af því ég sé að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er kominn af fjármálaráðstefnunni — við vorum báðir þar áðan og ég þakka honum fyrir innlegg hans þar — langar mig að spyrja hann að einu. Það er talað um að kaupmáttaraukning í frumvarpinu sé 0,3%, en í frumvarpi sem lagt er fram samhliða um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga stendur einnig að áhrifin af hækkunum muni leiða til 0,3% rýrnunar á kaupmætti. Bara til að hafa þetta skýrt: Er 0,3% hækkunin umfram það, svo ég sé ekki að fara með rangt mál? Ég bið hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að skýra það.

Ég nefndi heilbrigðisstofnanirnar. Það er eitt af því sem verður að gerast á þessu þingi og ég treysti á og ég hef sagt í fjölmiðlum: Nú komumst við ekki lengra. Fyrir ári síðan hættum við niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Hvernig í veröldinni datt mönnum í hug að byrja á því aftur? Hvernig í veröldinni datt mönnum það í hug og úti um allt land? Við förum í erfiða samninga á Vesturlandi þar sem við tökum niður öldrunardeild og sameinum annarri deild, yfir 100 milljarða hagræðing. Nú koma 43,5 milljónir í viðbót þar sem á að ráðast á hinar. Hver átti von á því miðað við það sem menn börðust fyrir í kosningabaráttu eða slag áður? Þetta er úti um allt land. Sameiningar sem eiga að skila hagræðingu. Það er eitthvað sem við sem þing verðum að standa saman um að laga og sem betur fer hefur hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) og fjármála- og efnahagsráðherra opnað á það að þingið fái umboð til að breyta því þannig að við skilum til baka í heilbrigðiskerfið eins og við höfum (Forseti hringir.) reiknað með eins fljótt og hægt er.