143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi lagasetningu og hvað tímabundið merkir. Það þýðir að málið verður endurmetið og hvort það verður framhald á. Ég ætla að leyfa mér þá túlkun. Í vinnunni í sumar neitaði ríkisstjórnarmeirihlutinn að breyta ákvæði um frítekjumörk hjá örorkulífeyrisþegum úr 29 þús. kr. í 110 þús. kr. Það ákvæði er framlengt ár í senn. Skil ég þá hv. þingmann þannig að þetta þýði að leggja eigi það af eftir ár? Ég skil það ekki þannig. Ég skil það þannig að menn ætli að framlengja það ár og ár, meta ákvæðið á hverjum tíma. Við báðum um að það yrði gert varanlegt hjá öryrkjum eins og hjá ellilífeyrisþegum. Það var ekki vilji fyrir því. En ég ætla ekki að leyfa mér að túlka það þannig að henda eigi því út.

Það var heldur ekki þannig með tækin á Landspítalanum því að við fengum áætlun og við settum inn í heilbrigðisáætlun líka að það þyrfti að vera ákveðið reglubundið fjárframlag á næstu árum til að tryggja að hægt væri að endurbyggja tækjakostinn. Við settum inn 862 millj. kr., tæpar 900 milljónir á þessu ári, og reiknuðum með að það þyrfti milljarð næstu tvö árin a.m.k. til þess að laga þetta.

Ég fagna því að ríkisstjórnin hefur tilkynnt, eftir að viðbrögðin komu fram við fjárlagafrumvarpinu, að skoða eigi þennan tækjalista og endurmeta hann. Við munum veita okkar liðsinni í að tryggja að endurnýjun verði á tækjum.

Varðandi sameiningu stofnana var það til dæmis þannig á Norðurlandi að það lá ekki ljóst fyrir. Þegar stofnanir eru sameinaðar á sínum tíma þá er t.d. Hvammstangi með Vesturlandi, Hólmavík er líka með Vesturlandi. Og að setja pennastrik og segja til dæmis að Patreksfjörður og Ísafjörður eigi að sameinast þar sem eru yfir 400 km á milli tíu mánuði ársins, þá held ég að menn verði að skoða það áður en þeir fara að tala um hagræðingu.

Sama gildir á Norðurlandi. Það liggur ekki ljóst fyrir hvernig Húsavík og Blönduós eigi að sameinast eða hvort menn ætli þá að halda Norðurlandi eystra og vestra hvoru í sínu lagi. Þetta á allt að vera í skoðun og þetta var í skoðun og er í skoðun þannig að ég ætla ekkert að útiloka neitt. En að setja inn í fjárlög niðurskurð á þessar stofnanir eftir það sem á undan er gengið er yfirlýsing frá núverandi stjórnvöldum: Þið gerðuð ekki nálægt því allt sem þið gátuð, þið getið gert miklu betur. Skerum bara áfram niður. Það eru skilaboðin sem er verið að gefa.