143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til hamingju með sitt fyrsta fjárlagafrumvarp. Honum hlýtur að hafa verið það nokkur léttir að ná því saman og fékk reyndar til þess aukatíma. Þeir sem til þekkja vita að mikil vinna liggur að baki, ekki bara hjá ráðherranum heldur tiltölulega fámennri en harðsnúinni sveit sem þarf að leggja á sig mikla vinnu vor- og sumarmánuði til að koma þessari afurð frá sér.

Ég ætla aðallega að horfa hér á stóru myndina, þ.e. fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár og ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma, og byrja á því að fagna því að hæstv. fjármálaráðherra leggur hér fram frumvarp þar sem markmiðið um hallalaus fjárlög á árinu 2014, sem unnið hefur verið að allt frá árinu 2011, skuli vera náð. Það er mikilvægt.

Auðvitað hafa að undanförnu heyrst raddir, m.a. frá hagfræðingum, um að kannski væri hægt að færa fyrir því efnahagsleg rök að seinka þessu enn frekar og þá með vísan til þess að hagvöxtur hefur verið daufur þó að hann hafi verið mun betri á Íslandi en víða í umheiminum og það má svo sem alveg rökræða það. Mundi það styðja betur við batann að sætta sig við að taka þetta í fleiri skrefum? Það hefði tvímælalaust mjög neikvæð áhrif að ýmsu öðru leyti, m.a. á stöðu Íslands út á við og orðspor okkar ef við yrðum að slá þessu enn frekar á frest. Það að stöðva hallarekstur og skuldasöfnun er mikilvægt en það skiptir máli hvernig sú niðurstaða er fengin. Þegar rýnt er í það þá eru fyrst og fremst fjögur, fimm lykilatriði sem draga hæstv. fjármálaráðherra að landi með þetta markmið sitt enda var það orðið erfitt vegna ákvarðana sem hæstv. ríkisstjórn hafði þegar tekið um að afsala ríkinu tekna og ætlar sér að gera í framhaldinu.

Í raun er þetta saumað saman með 10 milljörðum frá Seðlabankanum. Hæstv. ráðherra og menn hans hafa dottið niður á það snjallræði að endurútgefa skuldabréfið til Seðlabankans og hafa það vaxtalaust og sleppa þannig við 10 milljarða vaxtatekjur. Í grófum dráttum virðist þetta vera svona. Þarna hafa sennilega ekki farið fram miklar samningaviðræður milli hins sjálfstæða Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins heldur hefur Seðlabankinn fengið tilkynningu um það að hann verði af 10 milljarða vaxtatekjum á næsta ári.

Í öðru lagi verður það hæstv. fjármálaráðherra til lífs alveg sérstaklega að hann fær 9,4 milljarða í kassann á næsta ári af auðlegðarskatti sem fyrri ríkisstjórn lagði á vegna þess að hann kemur til útgreiðslu og borgunar á árinu 2014 vegna ársins 2013. Það hefði tekið í hjá hæstv. fjármálaráðherra ef hann hefði ekki haft þessa 9,4 milljarða. Þá hefði orðið erfitt að ná núllinu.

Í þriðja lagi er það skattur á þrotabú fallinna banka. Bankaskattur er útvíkkaður og reyndar stórhækkaður sem lendir ekki bara á þrotabúum heldur líka á starfandi fjármálafyrirtækjum. Minnist ég þá þess hvernig þau kveinuðu, ekki síst sparisjóðirnir, undan bankaskattinum og seinna fjársýsluskattinum. Það er frumleg hugmynd og stórathyglisverð að gera þrotabú í skiptum að skattandlagi. Menn hafa rætt það hér eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem er duglegur að reyna að bora í slíka hluti: Af hverju í ósköpunum var þetta ekki gert strax? Ég held að hann sé kominn með 40 milljarða mínus út af því að þetta skyldi ekki vera lagt á strax 2009. Stutta svarið er að þetta var skoðað og lagt til hliðar sem algjörlega óframkvæmanlegt og óraunhæft á árunum 2009 og 2010, einfaldlega vegna þess að skattandlagið var ekki til og það er umhugsunarefni hvort það er orðið til í dag með nægjanlega skýrum hætti til þess að það gangi upp að nota það sem skattandlag.

Þeir sem eitthvað þekkja til skipta í búum, ég tala nú ekki um óhemju stór og flókin bú eins og stóru bankana, vita hvernig þetta er. Fyrst kemur skilanefnd og síðan slitastjórn til starfa. Hún hefur störf við að vinna að málefnum búsins. Mönnum gefst tiltekinn frestur á að lýsa í það kröfum. Síðan þarf að vinna úr þeim kröfum, taka afstöðu til þeirra. Sumar eru teknar gildar, öðrum er hafnað. Um það rís ágreiningur. Menn óska eftir formlegum úrskurði skilanefndar eða slitastjórnar sem fallast ýmist á hann eða ekki og fara með málið til dómstóla. Þegar þetta var skoðað á sínum tíma var algjörlega ljóst að það var enginn efnahagsreikningur til og það yrðu missiri þangað til að búin yrðu komin í það ástand að þau gætu verið skattandlag. Þetta var lagt til hliðar og þar af leiðandi fór aldrei fram, svo ég kæmi að, skoðun á hinum tæknilegu og lögformlegu álitamálum enda var ekki tilefni til. Það var augljóst mál að þetta lægi í framtíðinni, ef ætti einhvern tímann að reyna þetta.

Það hlýtur nú að fara fram skoðun á því og verður afar áhugavert að fylgjast með því að sjá þegar lögfræðingar ræða um þá nýbreytni að gera þrotabú að skattaðila vegna þess að þetta er þrátt fyrir allt gjaldþrot og vegna þess að þeir sem áttu í viðskiptum og áttu inni hjá þessum aðila eiga að heita lögvarðir eigendur að því sem til skipta er í búinu. Kröfurnar njóta verndar, bæði í innlendum og alþjóðlegum skiptarétti og einhvers staðar er eitthvað um eignarrétt í stjórnarskránni. En sé þetta tæknilegt og gangi þetta upp lagalega þá er það spennandi og ekki skal standa á mér að skoða það. Ég mundi í sporum stjórnarsinna hafa örlítinn fyrirvara á, áður en þeir fara að skamma okkur fyrir að hafa ekki gert þetta á einhverjum fyrri tímum þegar það var ómögulegt, þangað til að þeir eru búnir að sýna að þetta sé hægt. Þá skulum við tala aftur saman.

Það mundi muna um þessa 11 milljarða í eitt eða tvö ár því að þetta er auðvitað eðli málsins samkvæmt tímabundinn skattur. Hann hverfur með því að búunum er skipt og greitt er út eða hitt sem væri ekki ólíklegra að þau gangi í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og verði að „solvent“ fyrirtækjum, kröfurnar hverfa og til sögunnar kemur lögaðili sem greiðir þá skatt sem slíkur, þ.e. sem eignarhaldsfélag eða eignaumsýslufélag sem borgar skatt eins og hvert annað hlutafélag. Þarna eru 11 milljarðar á næsta ári og kannski á þarnæsta ári sem eru líka athyglisverð skilaboð til kröfuhafa og fyrir samhengið um afnám gjaldeyrishafta og nauðasamninga þessara fyrirtækja. Ríkisstjórnin gerir ekki ráð fyrir því að þessi skattstofn hverfi næstu tvö árin. Það er athyglisvert í þessu samhengi.

Frú forseti. Loks seilist ríkið inn í tryggingagjaldið með þeim hætti sem tók mig langan tíma að átta mig á að væri raunverulega rétt. Það er þannig að ríkið tekur til sín 0,75% af tryggingagjaldsstofninum í viðbót yfir í almenna tryggingagjaldið vegna þeirrar lækkunar sem verður upp á 0,6% hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og 0,25% hjá Ábyrgðasjóði launa. Nú er það þannig með tryggingagjaldið að hvert prósentustig er um það bil 10 milljarðar. Skatturinn er á heildarlaunasummuna í landinu sem er rétt undir þúsund milljörðum króna. Þetta er því einfalt reikningsdæmi. Þessi 0,75% sem færast úr Atvinnuleysistryggingasjóði og Ábyrgðasjóði launa yfir í almenna tryggingagjaldið eru 7,5 milljarðar í viðbótartekjur hjá fjármálaráðherra í bókhaldi ríkisins.

Þá er ekki öll sagan sögð því að svo kemur að fæðingarorlofinu. Það tók mig langan tíma að átta mig á þessu því að þetta er ekki skýrt fram sett í fjárlagafrumvarpinu. Það finnur maður í þessu litla frumvarpi, í einni setningu. Ég fann þetta hvergi í greinargerð beggja hefta fjárlagafrumvarpsins. Hér kemur lúmsk, lítil setning á bls. 9, með leyfi forseta:

„Þá er einnig lagt til að sá hluti almenna tryggingagjaldsins sem hefur hingað til runnið til Fæðingarorlofssjóðs verði lækkaður úr 1,28% í 0,65% á árinu 2014 og muni sá mismunur sem verður til vegna þeirrar lækkunar renna til fjármögnunar lífeyris- og slysatrygginga almannatrygginga.“ — 0,63% í viðbót.

Með öðrum orðum, ríkið tekur 1,38% í viðbót af tryggingagjaldstofninum til sín á næsta ári, milli 13 og 14 milljarða. Það munar nú um minna. Þetta er auðvitað stærsta einstaka aðgerðin til þess að hæstv. fjármálaráðherra komist bókhaldslega upp fyrir núllið. Ætli þeir eigi ekki eftir að segja eitthvað þegar þeir átta sig á þessu og hafa kannski gert það, aðilar vinnumarkaðarins? Þeir kvörtuðu og kveinuðu í fyrra undan því að við færðum örlítið yfir til að fullfjármagna Ábyrgðasjóð launa og fæðingarorlofið í fyrra. Tryggingagjaldið er aðeins lækkað um 0,1% en ríkið tekur yfir í sitt bókhald 1,38% af því á næsta ári og það færist ekki inn í Atvinnuleysistryggingasjóð, ekki inn í Ábyrgðasjóð launa, ekki inn í Fæðingarorlofssjóð. Þá skilur maður þetta betur. Ríkisstjórnin stútar áformum um að byggja upp fæðingarorlofið á nýjan leik.

Frú forseti. Alvarlegast er þó af mörgu sem ég hefði viljað ræða, en tími minn er að renna út, ríkisfjármálaáætlunin til næstu þriggja ára. Hún er áfall. Það er áfall að sjá það teiknað hér upp af hæstv. fjármálaráðherra að við munum hjakka í sama farinu næstu þrjú ár, á núllinu, og afkoman mun versna milli áranna 2015 og 2016 miðað við þann framreikning sem hér er sýndur. Af hverju? Ekki vegna þess að hér eigi ekki að verða þó þolanlegur hagvöxtur upp á 2,7–2,8%. Nei, vegna þess að tekjurnar hrynja jafnóðum og tekjuöflunaraðgerðir fyrri ríkisstjórnar deyja út. Það er þess vegna. Ekkert kemur í staðinn nema tímabundnar æfingar af því tagi sem ég hef hér farið yfir og þær deyja líka út. Þannig að á árinu 2016 verður þetta kolsvart (Gripið fram í: Algjörlega.) miðað við þá framtíð sem hæstv. ríkisstjórn teiknar sjálf upp í fylgiskjölum sínum.

Frú forseti. Hér í litla heftinu, ef ég lýk máli mínu með því, stendur:

„Ljóst er að afkomubati næstu ára eftir 2014 miðað við þá framreikninga sem hér eru kynntir er langtum minni en ásættanlegt getur talist og ekki verður við slíka niðurstöðu unað.“

Þetta er vel orðað, ég tek undir þetta í þessum plöggum. (Gripið fram í.)