143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, ég hafði bara ekki tíma til að fara yfir aðhaldsaðgerðirnar. Eins og mátti væntanlega ráða af máli mínu var ég að tala um tekjuöflunarhliðina og nefndi þessa þrjá, fjóra, fimm stóru pósta sem hæstv. fjármálaráðherra bjargar sér í raun á. Af þeim er stærsti þátturinn sá að seilast svona hressilega inn í tryggingagjöldin og færa svona miklar fjárhæðir yfir í hinn almenna rekstur ríkisins frá öðrum afmörkuðum liðum tryggingagjaldsins. Það er stærsti einstaki þátturinn.

Ég gagnrýni það líka að tveir þriðju hlutar aðgerðarinnar skuli liggja á aðhalds- og niðurskurðarhlið en bara einn þriðji á tekjuöflunarhlið. Ég tel það ekki nógu góða blöndu. 50:50 væri nær lagi eða 45:55 eins og við reyndum að halda okkur innan á sínum tíma. Og það kemur að niðurskurðinum eða aðhaldsaðgerðunum. Hæstv. fjármálaráðherra nefnir algjörlega réttilega að allt snýst þetta svo um það að skapa störf og auka verðmætasköpun og veltuna í þjóðfélaginu. Þannig náum við okkur upp úr þessu, en við erum í þröngri stöðu, við erum flokkuð sem eitt af þeim ríkjum innan OECD sem ekki hefur í raun neitt teljandi svigrúm til svokallaðra „stimulus-aðgerða“, örvandi aðgerða, af því að skuldastaða okkar býður ekki upp á það. Við erum í þröngri stöðu. Ef við hefðum nóga peninga eða skulduðum miklu minna gætum við notað ríkið í örvandi aðgerðir. Við vorum þó að reyna af veikum mætti að styðja við þá vaxtarsprota sem líklegastir væru til að geta skapað hratt störf, útflutningstekjur og hagvöxt; skapandi greinar, hugvits- og tæknigreinar, ferðaþjónusta. Að fara svona harkalega í þann geira finnst mér eitt það allra dapurlegasta í þessu og ég skil ekki hæstv. ríkisstjórn að skera niður framlög til rannsókna og þróunar til stuðnings við nýsköpunar- og sprotafyrirtæki, við litlu sjóðina sem áttu að styðja hinar skapandi greinar. Það eru 45 milljónir í hönnunarsjóð eða hvað það nú er. Er það virkilega svo að nú séum við aftur orðin svo fátæk að nú getum við ekki einu sinni gert það? Þarna var verið að reyna að fjárfesta í framtíðinni og byggja eitthvað upp. Það er þessi geiri, (Forseti hringir.) byggðamálin og Landspítalinn sem mér finnst fara langverst út úr þessu hjá hæstv. ráðherra.