143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur verið stórkostlegur málflutningur uppi, bæði í umræðunni í þingsal og úti í þjóðfélaginu á köflum um það að sitjandi ríkisstjórn og meiri hluti hennar sé að einhverju leyti leystur undan ábyrgð á sínum eigin ákvörðunum um að gera eitthvað annaðhvort ekki eða að gera það, vegna þess að einhver slík áform hafi ýmis staðið til á fyrri tíð. Það breytir nákvæmlega engu um það hvort einhver löggjöf er tímabundin eða ekki, það er ákvörðun og á ábyrgð sitjandi ríkisstjórnar og meiri hluta hennar hverju sinni (Gripið fram í.) hvort hún gildir áfram, (Gripið fram í.) hvort hún er framlengd eða hvort henni er breytt.

Alveg eins er það með fjárfestingaráætlun. Það er engin afsökun, það er ekkert svar þegar menn fara og skerða framlög til rannsókna og þróunar og nýsköpunar og skapandi greina að segja: Ja, þetta var inni í fjárfestingaráætlun. Það leysir núverandi ríkisstjórn og meiri hluta hennar ekki undan ábyrgð gagnvart því að það er hún sem leggur til að framlögin verði ekki meiri en þetta. Það er pósitíf, sjálfstæð ákvörðun og verkefnin eiga ekki að gjalda þess eða þess vegna njóta endilega að þau hafi verið í einhverjum tilteknum umbúnaði í tíð fyrri ríkisstjórnar á öðru kjörtímabili. Er hæstv. ríkisstjórn ekki búin að átta sig á því að það er hún sem er með völdin? Hefur hún ekki meiri hluta í þessum sal og ætlar hún ekki að bera ábyrgðina á því sem verður niðurstaðan í frumvörpum hennar? Er það ekki þannig? Pólitíska ábyrgðin er 100% hjá þeim sem leggja fram fjárlagafrumvarp, vinna að því og afgreiða það með meiri hluta sínum, algjörlega óháð því hvernig eitthvað var í fortíðinni.

Af því að hæstv. ráðherra nefndi sóknaráætlanir landshlutanna ætla ég að biðja hann um eitt, að slátra því ekki. Það er búið að leggja mikla vinnu í að byggja upp þetta fyrirkomulag. Það er almenn ánægja með þetta í landshlutunum. Gott og vel, við höfum kannski ráð á því að fara hratt upp á við með þetta en í guðs bænum höldum þó þarna inni einhverjum 400 milljónum. Ekki stúta þessu. Það verða ofboðsleg vonbrigði og það verður sóun á mikilli og góðri vinnu og betra andrúmslofti sem byggst hefur upp milli Stjórnarráðsins og landshlutanna í samstarfi við stýrinetið og svo framvegis.