143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað athyglisvert — ég veit ekki hvort ég á að segja spaugilegt, en sérstakt í það minnsta — að heyra hv. þingmann ræða um mikilvægi þess að jöfnuði hafi verið náð í ljósi þess að það er byggt á þeim árangri sem náðist í fjárlögum sem hann ákvað að styðja ekki.

Hv. þingmaður ræddi í upphafi máls síns um að hallareksturinn fyrir árið 2013 sé ástæðan fyrir því að allt sé erfitt og auðvitað þarf að taka á þeim málum. En mér virtist hann tala um að almennar efnahagshorfur hafi verið fráfarandi ríkisstjórn að kenna. En nú er það svo að hagvöxtur byrjar að dragast saman þegar núverandi stjórnarflokkar fara að setja fram kosningaloforð sín. Menn hugsa með sér: Jæja, við skulum sjá hvernig kosningarnar fara, hér er miklu lofað og við höldum að okkur höndum þangað til.

Eftir að hæstv. ríkisstjórn tók við er óvissunni enn viðhaldið og óvissunni er viðhaldið áfram með þessu fjárlagafrumvarpi. Í júní er kostnaður vegna verra efnahagsástands 13,5 milljarðar og það er fyrst og fremst vegna óvissu sem þessir tveir flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa skapað.

Fimm milljarðarnir — já, í útgjaldaliðum hefði þurft að taka á og koma fyrir í áætluninni eins og gert er, en þarna eru tannlækningar barna, það er jafnlaunaátak, það er kostnaður vegna hælisleitenda, það er lyfjakostnaður o.s.frv. sem erfitt var annað en að taka á og setja í áætlunina eins og þeir gera.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt mat hjá mér að efnahagsástandið sé slíkt vegna þeirrar óvissu sem framsóknar- og sjálfstæðismenn hafa skapað.