143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:30]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að fara inn í það sem ég mundi vilja kalla lýðskrum þegar talað er um bankaskattinn og þrotabúin, því að auðvitað vorum við hér á barmi gjaldþrots. Fall bankanna og bankakreppan sköpuðu hér mikla óvissu. En við unnum að því allt síðasta kjörtímabil að eyða þeirri óvissu, m.a. með því að finna það út hver skuldaði hvað í þessu landi. Við munum fara yfir það allt saman í fjárlaganefndinni, ég og hv. þingmaður. Þar verða þá staðreyndirnar dregnar fram og við þurfum ekki að kasta einhverju lýðskrumi okkar á milli hvað það varðar.

En er hv. þingmaður sáttur við að hagræðingarkrafa sé gerð núna að nýju eftir að við hættum að gera hagræðingarkröfur á heilbrigðisstofnanirnar? Er hv. þingmaður sáttur við að það sé gert frekar en að skoða tekjuhliðina, frekar en að taka hærra auðlindagjald af stórútgerðinni, frekar en að hafa eðlilegan virðisaukaskatt á hótelgistingu eða yfir höfuð að byrjað sé á því að taka niður tekjustofna? Hefðum við ekki fyrst átt að byrja á því að byggja upp heilbrigðiskerfið? Er hv. þingmaður sáttur við þessa forgangsröðun ef hann horfir til baka og hugsar til þess sem hann sagði í þessum ræðustóli haustið 2011?