143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég kom inn á í máli mínu varðandi bankaskattinn var að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, m.a. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hafa talað um að ríkissjóður hafi afsalað sér tekjum þegar veiðigjöld á smærri útgerðir í bolfisksvinnslu voru lækkuð og veiðigjöld á stærri útgerðarfyrirtæki í uppsjávarveiðum voru hækkuð. Á sama hátt mætti segja að ríkissjóður hafi afsalað sér tekjum með því að leggja ekki á hærri bankaskattt. Það voru orð hv. þingmanns sjálfs hér, hann talaði um að afsala sér tekjum. Þá er það svo að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon afsalaði sér tekjum með því að leggja ekki á hærri bankaskatt. Þetta er auðvitað orðræða sem gengur ekki upp og það er það sem ég kom inn á í máli mínu.

Varðandi þjónkun við erlenda kröfuhafa held ég að við getum rifjað upp Icesave-málið. Við getum farið yfir hvernig Icesave-málið var á sínum tíma þegar ríkisstjórnin reyndi ítrekað að semja um hundruð milljarða útgjöld sem þjóðin hafnaði og síðan kom í ljós að þjóðin hafði á réttu að standa.

Ég ætlaði ekki að særa hv. þingmann og ég biðst velvirðingar, frú forseti, ef ég hef notað óheppilegt orðalag en það er engu að síður svo að við urðum ítrekað vitni að þessu í Icesave-málinu á síðasta kjörtímabili. Það að núverandi ríkisstjórn setji út á þennan bankaskatt og skuli hafa kjark og þor til þess sýnir mér að þeim er treystandi í því máli og þau orð tek ég ekki til baka. En ég bið hv. þingmann afsökunar ef ég hef notað óvarlegt orðalag í samlíkingum í ræðu minni áðan.