143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar þá hefur afstaða mín til þess máls ekkert breyst. Jöfnun húshitunarkostnaðar er gríðarlega brýnt hagsmunamál fyrir landsbyggðina, fyrir hin köldu svæði og er réttlætismál. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan eins og fjölmörg önnur mál, heilbrigðismál, menntamál, byggðamál og jöfnun húshitunarkostnaðar, að allt er þetta eitthvað sem fjárlaganefnd hlýtur að skoða. En ég ítreka þó, rétt eins og ég gerði varðandi fyrri andsvör, að það verður að byggja allt á því að við skilum ríkissjóði réttum megin við núllið fyrir jól þegar við samþykkjum fjárlög fyrir árið 2014.

Varðandi vinnu hagræðingarhóps og tillögur sem ekki má deila þá er það kannski ekki alveg rétt því að þessi vinna hefur verið í gangi, hefur verið á góðu skriði og þessar tillögur munu líta dagsins ljós, það liggur algjörlega ljóst fyrir. Hagræðingarhópurinn og ráðherranefnd um ríkisfjármál eru að vinna þær núna samhliða. Þær munu líta dagsins ljós. Ég sagði það í ræðu minni að þessar tillögur sýndu meðal annars fram á að það er svigrúm í ríkisrekstri til að sækja fjármagn til þess að setja inn í önnur verkefni. Það verður ekki sársaukalaust, það verður ekki auðvelt, það mun kosta niðurskurð á öðrum sviðum og það mun kosta skipulagsbreytingar og kerfisbreytingar. Til lengri tíma ætti það að skila aukinni framleiðni í ríkisrekstri, þ.e. að við veitum sömu þjónustu fyrir lægri tilkostnað.

Varðandi það af hverju ég hætti stuðningi mínum við síðustu ríkisstjórn þá var það m.a. út af grundvallarmáli, Evrópusambandsmálinu. Það er rétt hjá hv. þingmanni, fjárlög eru grundvallarplagg. Sá sem ekki styður fjárlög styður ekki ríkisstjórn. Það er algjört grundvallaratriði að styðja fjárlög fyrir hvern þann sem ætlar að styðja ríkisstjórn. Ég treysti mér ekki lengur til þess að styðja ríkisstjórnina á sínum tíma, m.a. vegna stefnunnar í utanríkismálum sem voru Evrópusambandsmálin. Sem betur fer (Forseti hringir.) og eðlilega hefur núverandi ríkisstjórn allt aðra stefnu í þeim málaflokki og ég treysti henni mjög vel og styð hana heils hugar.