143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:45]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugavert. Það var ekki hægt að styðja neitt í fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar vegna umsóknar að ESB en nú er hægt að styðja blóðugan niðurskurð í öllu því sem þingmanninum virðist vera kært samkvæmt ræðunni sem hann flutti hér áðan.

Hér hefur verið talað um að breikka skatta. Það hefur helst falist í því, hefur mér sýnst, að þá verði fólkið látið borga meira, m.a. veika fólkið, en ekki þeir sem aurana eiga eins og við erum búin að fara oft yfir hér í dag. Þetta er alla vega okkar skilningur.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvaða tekjustofna hann sér fyrir sér að hægt sé að breikka eða búa til.

Mig langar líka að velta upp með honum, af því að þingmenn stjórnarinnar hafa gagnrýnt töluvert að bankaskatturinn hafi ekki verið lagður á fyrr og það er nú búið að gera ágætlega grein fyrir því, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði það: Datt hæstv. forsætisráðherra, sem hv. þingmaður mærir hér mjög og treystir, aldrei í hug að leggja fram tillögu um að skattleggja þrotabú gömlu bankanna með bankaskattinum á síðasta kjörtímabili?