143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:55]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Fyrir tveimur dögum lagði hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson fram frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014. Síðan þá hefur það fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum og manna á meðal. Þetta fjárlagafrumvarp ber með sér nýja stefnu, stefnu ábyrgðar, festu, framtíðarsýnar og trú á okkur Íslendinga. Við erum kjarkmikil þjóð, látum erfiðleika ekki brjóta okkur, þó að þeir geti beygt okkur um stund rísum við alltaf upp að nýju.

Undanfarin ár hafa verið erfið og þeir sem stóðu við stjórnvölinn þá háðu varnarbaráttu sem tókst að ýmsu leyti vel miðað við aðstæður. Nú eru lögð fram hallalaus fjárlög í fyrsta skipti í sex ár. Með þessum fjárlögum er sett fram það staðfasta og metnaðarfulla markmið að skuldasöfnun með tilheyrandi vaxtakostnaði sé að baki.

Frá árinu 2012 hefur íslenska þjóðin greitt 50 milljarða í vexti af lánum sem tekin voru til að endurfjármagna viðskiptabankana. Samtals hafa vaxtagreiðslur alls numið um 90 milljörðum árlega undanfarin ár, upphæð sem hefði dugað til að reka Landspítalann í tvö ár og þrjá mánuði. Það er grátlegt að horfa á eftir þessu fjármagni sem hefði verið hægt að nota í svo ótal margt annað. En nú verður undið ofan af og skuldasöfnun hætt.

Þrátt fyrir mikið aðhald er lögð áhersla á að hefja uppbyggingarstarf að nýju og að hagvöxtur aukist. Vaðlaheiðargöng, Norðfjarðargöng og vegtengingar og hafnargerð við Bakka á Húsavík eru meðal verkefna sem auka hagvöxt og tekjur og hafa jákvæð afleidd áhrif til atvinnusköpunar til hagsbóta fyrir fjölskyldur og heimili.

Sjávarútvegur ásamt áliðnaði og ferðamannaþjónustu gegna lykilhlutverki í öflun gjaldeyristekna fyrir Ísland og skapa heimilum um allt land lífsviðurværi ásamt því að skila miklum skatttekjum í þjóðarbúið. Framleiðni í sjávarútvegi á Íslandi er með því besta á alþjóðavísu og skapar grundvöll fyrir nýjar atvinnugreinar, svo sem í tækni- og hugvitsgreinum. Það er mikilvægt að búa atvinnulífinu stöðugt og traust efnahagslegt umhverfi sem styður við þróun og framsókn íslenskra fyrirtækja.

Tekin verður upp ný skattstefna sem felur í sér gagnsæi í skattlagningu og að skilvirkni skattkerfisins verði aukin með það að markmiði að skapa hvata til verðmætasköpunar. Skattprósenta á miðjuþrepi verður lækkuð um 0,8%, í 25%. Um 80% skattgreiðenda á Íslandi greiða skatta í miðjuþrepi. Þessi skattbreyting ein og sér mun auka ráðstöfunartekjur fólks um tugi þúsunda á ári.

Vaxtabætur sem voru tímabundin ráðstöfun og áttu að falla niður um næstu áramót verða óbreyttar fyrir árið 2014. Það hefur í för með sér að vaxtabætur geta nú numið allt að 600 þúsundum á ári hjá hjónum en hefðu ella farið niður í 314 þúsund. Þetta er mikill stuðningur við skuldsett heimili og fjölskyldur með lægri tekjur og litla eignamyndun.

Barnabætur voru hækkaðar verulega í fjárlögum 2013 og mun ríkisstjórnin standa einhuga vörð um þær. Barnabætur með hverju barni eru nú 178 þús. kr. á ári.

Frítekjumark barna, sem hefur verið óbreytt í mörg ár, verður hækkað úr 105 þúsundum í 180 þúsund, sem þýðir að hvert barn undir 18 ára aldri getur haft 180 þús. kr. í tekjur án þess að þær séu skattlagðar.

Þá verður á kjörtímabilinu unnið að aðgerðum til að lækka útgjöld barnafjölskyldna með lækkun á virðisaukaskatti á barnavörur. Fyrsta skrefið er tekið nú með því að færa einnota barnableiur í neðra skattþrep, 7% virðisaukaskatt, í stað 25,5%. Þessi aðgerð mun skila að minnsta kosti 3–7 þús. kr. aukningu á ráðstöfunartekjum á mánuði til barnafjölskyldna.

Framlög til heilbrigðismála munu aukast um tæpa 5,5 milljarða, úr 127 milljörðum 2013 í tæpa 133 milljarða 2014, sem er 4,3% hækkun milli ára. Það felur í sér að fjárveiting til öldrunarmála hækkar um 835 millj. kr. að raungildi. Þar af er 350 millj. kr. framlag til reksturs 40 nýrra hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum. Það mun létta verulega álagi af lyflækningasviði Landspítalans sem mjög mikið hefur reynt á undanfarið. 400 milljónir sem komu úr Framkvæmdasjóði aldraðra í rekstur hjúkrunarrýma fara nú óskiptar inn í sjóðinn og nýtast til uppbyggingar hjúkrunarstofnana. 100 milljónir fara í hönnun sjúkrahótels á lóð Landspítala en stefnt er að því að fullnaðarhönnun ljúki árið 2015 og þá verði hægt að hefja framkvæmdir. Sjúkrahótel skiptir verulega miklu máli fyrir alla þá sem þurfa að leita lækninga utan af landi og hafa ekki í hús að venda, sér í lagi þegar um langtímameðferð er að ræða eins og hjá krabbameinssjúkum.

Framlag til kaupa á S-merktum lyfjum hækkar um 670 millj. kr. til að mæta auknum útgjöldum á þessu ári og vegna fyrirsjáanlegrar aukningar árið 2014. 1.500 milljónir koma í auknar launagreiðslur á heilbrigðisstofnunum landsins. Um 350 millj. kr. verður varið í niðurgreiðslu tannlækninga barna á grundvelli samnings við tannlækna.

Í tengslum við fjárlagagerð ársins 2014 munu fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra vinna að gerð nýrrar tækjakaupaáætlunar fyrir Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri til ársins 2017 í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á viðhald og endurbætur núverandi húsa og tækjakosti Landspítalans.

Dregið verður úr skerðingum bótaþega en framlög til elli- og örorkulífeyrisþega svo og félagslegrar aðstoðar aukast um 5 milljarða og síðan 3,4 milljarða vegna verðbóta og fjölgunar bótaþega. Hér er samanlagt mesta útgjaldaaukning í einstökum málaflokki fjárlagafrumvarpsins eða 8.400 millj. kr. aukning til bótaþega frá árinu 2013.

Framhaldsskólar hafa árum saman verið í fjársvelti og unnið hefur verið gríðarlega mikilvægt og gott starf innan veggja þeirra við mjög erfiðar aðstæður. Þrátt fyrir áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum hækka framlög til einstakra framhaldsskóla að meðaltali um 4% nú miðað við fjárlög 2013, enda hefur hæstv. menntamálaráðherra sagt að mikilvægt sé að hlífa grunnþjónustu.

Þá vil ég lýsa ánægju með að áfram verður lagt framlag í hönnun og byggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Ég vek athygli á því að sérstaklega er gefinn gaumur að starfsskilyrðum forstöðumanna sem hafa árum saman unnið samviskusamlega við afar erfið rekstrarskilyrði. Í frumvarpinu kemur fram að styrkja þurfi forstöðumenn sem liðsheild, efla starfsþróun og endurskoða aðferðir við launaákvörðun forstöðumanna með áherslu á frammistöðu og ábyrgð.

Virðulegi forseti. Sínum augum lítur hver silfrið. Það er algjörlega ljóst að hægt er að finna þessu fjárlagafrumvarpi sitthvað til foráttu ef vilji er fyrir hendi og hann er það sannarlega á sumum bæjum. Ég sagði í upphafi að í frumvarpinu fælist ný stefna. Hún kemur einnig fram í því að skattur á bankana hækkar úr 0,041% í 0,145% og sá skattur leggst einnig á föllnu bankana. Þessi skattbreyting mun skila 14,2 milljörðum í tekjur í ríkissjóð.

Ég hef hér vakið athygli á hluta þeirra jákvæðu breytinga sem þetta fjárlagafrumvarp boðar en margt er ótalið. Ég trúi því að sameinuð munum við efla og byggja öflugt og eftirsóknarvert samfélag þjóðinni til heilla.