143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum hér í meginumræðu, umræðu um bókina, fjárlagafrumvarpið 2014 sem leggur línurnar um þær pólitísku áherslur sem hin unga ríkisstjórn ætlar að leggja fyrir Ísland til framtíðar.

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að í upphafi síðasta kjörtímabils var unnið samkvæmt efnahagsáætlun fyrri ríkisstjórnar sem var unnin í samráði og samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar var tekin sú ákvörðun að fara hægt og bítandi í að vinna niður hallann sem skapaðist á ríkissjóði við gríðarlegt tekjufall ríkissjóðs í hruninu og vaxtaálögur vegna skulda sem ríkið þurfti að taka á sínar herðar.

Þannig er sá hallarekstur til kominn að það var ákvörðun tveggja ríkisstjórna að vinna í samræmi við þetta enda væri það til heilla fyrir íslenskt samfélag að taka ekki kúfinn af í einum bita enda hefði það eyðilagt svo mikið að ávinningurinn hefði ekki orðið neinn heldur mikill skaði fyrir samfélagið.

Margir stjórnarliðar hafa rætt um 85 milljarða vaxtakostnaðinn sem við berum í þessu landi vegna hrunsins. Ég tek undir það, herra forseti, að það er margt til vinnandi að losna undan þeirri vaxtabyrði. Það eru allt of margar krónur sem fara í það að borga vexti en ekki velferð.

Fyrri ríkisstjórn, ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, vann á hallanum með þríþættu markmiði. Tekna var aflað í gegnum nýja skatta en skattkerfinu var líka breytt til þess að verða réttlátara kerfi. Við skárum heldur betur niður útgjöld en við einbeittum okkur líka að því að efla þá þætti samfélagsins sem ríkissjóður hefur áhrif á og sem eru til þess líklegir að skapa hér vöxt til framtíðar. Við náðum firnagóðum árangri eins og heyra mátti af ræðu hæstv. forsætisráðherra hér í gærkvöldi þegar hann lofsöng þær aðstæður sem hann tók við eftir valdatíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það sem syrgir mig í raun og veru mjög mikið er að ýmsir nýsköpunarsjóðir, uppbygging á ferðamannastöðum, uppbygging innviða á friðlýstum svæðum, Kvikmyndasjóður, græna hagkerfið, sóknaráætlanir fyrir landshluta, að krafturinn hafi verið dreginn úr þessum áformum eða þau jafnvel eyðilögð. Þetta eru ekki bara fjárveitingar, að baki lágu úthugsaðar áætlanir. Það var mikil vinna sem lá að baki því hvernig væri hægt að efla íslenskt samfélag og fá það til að vaxa til framtíðar til þess að fá fram vöxt í greinum sem eru verðmætaskapandi og þar sem ungt fólk langar til að starfa.

Þess vegna finnst mér þetta plagg á heildina litið vera einkenni á því sem maður hefur fundið frá þessari ungu ríkisstjórn á hennar stutta valdatíma, það á að færa í fyrra horf. Ég vildi að ég hefði lengri tíma því að mér liggur mikið á hjarta en það er verið að færa í fyrra horf, horf sem var ekkert sérstaklega spennandi. Í stað þess að halda áfram að vinna að því að skattleggja auðlindir Íslands og skapa þannig tekjur fyrir ríkissjóð er verið að draga úr þeirri skattheimtu en með einhverjum smávægilegum aðgerðum lækka milliþrepið í tekjuskattinum í staðinn fyrir að lækka lægsta þrepið sem kemur öllum til góða sem hafa tekjur og greiða skatta.

Á morgun gefst okkur tækifæri til að ræða frekar ákveðna málaflokka en almennt séð, herra forseti, er þetta fjárlagafrumvarp vonbrigði.