143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram í dag og heldur áfram á morgun með því að fagráðherrar koma hingað frá kl. 10.30 eins og lagt er upp með, allan daginn fram til kl. 19.30 ef dagskráin gengur eftir eins og hún er lögð upp og byrjar á því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur hingað.

Fyrst og fremst vil ég þakka fyrir yfirvegaða og málefnalega umræðu. Það er ekki við öðru að búast en menn taki til umræðu ólíka sýn á áherslur sem eiga að birtast í fjárlagafrumvarpinu. Mér þykir hins vegar mikils um vert að góður samhljómur virðist vera á þinginu um mikilvægi þess að stöðva skuldasöfnunina. Við getum svo rætt það í þinginu og í fjárlaganefndinni verður eflaust mikið tekist á um málið eða það skoðað frá öllum hliðum með hvaða hætti því markmiði er á endanum náð. Það eru auðvitað stórpólitísk álitaefni sem koma þar til skoðunar, hvernig við sníðum tekjuöflunarkerfið, hvar við stillum af útgjöldin og tryggjum að þau vaxi ekki úr hófi fram á einstökum málefnasviðum.

Ég ætla líka að gera þá játningu að ég hef aðeins hlustað eftir umræðunni á þinginu í dag með hliðsjón af því að við erum með í smíðum frumvarp, sem ég hef áður minnst á, um opinber fjármál þar sem ætlunin er að þingið fari að beina sjónum sínum meira að stóru myndinni og málefnaflokkunum en minna að einstökum útgjaldaliðum. Ég hef aðeins verið að máta umræðuna eins og hún hefur þróast inn í þann veruleika sem við ætlum í raun og veru að láta reyna á hvort hægt er að búa til þannig að umræðan fari að beinast meira að málefnasviðum og minna að einstökum útgjöldum, en það þýðir ekki að forgangsröðunin verði ekki áfram til endurskoðunar eða til umræðu þegar fjárlög verða lögð fram. Í því frumvarpi er ætlunin að í sérstöku fylgiriti komi dreifingin eða úthlutunin innan málefnasviðanna nánar fram en verði ekki hluti af fjárlögunum sjálfum. Í sjálfu sér er ekkert hægt að spá fyrir um það eða segja til um hvernig mun ganga að færa umræðuna yfir í það nýja form en ég tel engu að síður að við ættum öll að byrja að hugleiða hvernig við ætlum að færa okkur yfir í mun vandaðri eða betri vinnubrögð sem munu tryggja meiri langtímahugsun og betra aðhald með einstökum málefnasviðum og fara að velta því fyrir okkur hvaða aðferð er best til að tryggja að án þess að við fórnum markmiðunum sem liggja að baki nýjum lögum um opinber fjármál geti farið fram hér á þinginu sú umræða sem þingmenn kalla eftir að eigi sér stað í hvert sinn sem áherslur eru kynntar með nýju fjárlagafrumvarpi. Allt er þetta auðvitað hluti af umræðu sem þarf að eiga sér stað þegar það ákveðna frumvarp fer fram en mér finnst ágætt að minnast á það hér þegar við ræðum fjárlögin og erum enn í því fyrirkomulagi sem tíðkast hefur.

Að öðru leyti ítreka ég þakkir fyrir málefnalega og yfirvegaða umræðu. Ég vonast til þess að okkur auðnist á þinginu, þrátt fyrir að ég geri ráð fyrir að frumvarpið taki breytingum eins og ávallt er, að tryggja áfram markmiðið um hallalaus fjárlög og ég veit að við munum geta átt gott samstarf við nefndina. Umræðan heldur áfram á morgun og ég mun taka þátt í henni þá.