143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er ekki tilviljun að fjárlagafrumvarpið er lagt fram á fyrsta degi þingsins. Fjárlagafrumvarpið endurspeglar stefnu ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta. Í gær var fjallað um fjárlagafrumvarpið vítt og breitt, í dag beinist umræðan að málaflokkum sem einstakir hæstv. ráðherrar bera ábyrgð á. Ég get þó ekki annað en látið það eftir mér að fjalla nokkuð um almenn atriði. Í fyrsta lagi ber að fagna því að lagt er fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn hallalaus. Það er ánægjulegt að það sé yfirleitt hægt fimm árum eftir að ríkissjóður rambaði á barmi gjaldþrots. Fimm ár eru í raun ekki langur tími.

Í umræðunni í gær kom fram skýrara en ég hef tekið eftir áður þegar fjárlagafrumvarp hefur verið lagt fram að ýmislegt getur breyst og lögð var mikil áhersla á það að mikið muni breytast í meðförum þingsins. Hv. formaður fjárlaganefndar lagði sérstaka áherslu á þetta atriði. Ég vil samt hvetja okkur öll, sérstaklega stjórnarmeirihlutann, til að standa þannig að meðferð frumvarpsins í þinginu að sá ásetningur að afgreiða hallalaus fjárlög, ásetningur sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði mikla áherslu á í framsögu sinni, haldi þegar frumvarpið verður samþykkt.

Hvað varðar fjárlögin og sjávarútveg er mér sérstaklega í huga lækkunin á sérstaka veiðigjaldinu frá því sem áður var samþykkt. Sumir halda því fram að þetta hafi verið óumflýjanlegt vegna þess að einhverjir tæknilegir gallar voru á því hvernig innheimta átti sérstaka veiðigjaldið. Þá hefði að mínu mati verið réttara að lagfæra þá tæknilegu galla og ef gjaldið var minni útgerðum í óhag eins og haldið er fram mátti líka gjarnan breyta því hvernig gjaldið átti að leggjast á mismunandi útgerðir en alls ekki lækka gjaldið frá því sem samþykkt hafði verið.

Mér finnst það lýsa litlum skilningi á efnahag þjóðarinnar að segja, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í sjónvarpsviðtali um daginn, að það væri ekki sjálfgefið að sjávarútvegurinn greiddi til samfélagsins, í útlöndum væri hann víðast hvar, og í nágrannalöndum, ríkisstyrktur. Það lýsir í raun ekki bara skilningsleysi á atvinnugreininni heldur almennt á því hvers vegna við getum reynt að halda uppi sjálfstæðu efnahagslífi hér á landi. Sjávarútvegurinn er ein af mikilvægustu efnahagsstoðum landsins. Hann er rekinn með miklum hagnaði eins og allir vita. Veiðigjaldið er greiðsla útgerðarinnar fyrir afnot af auðlindinni sem færir þeim sem hana nýta mikinn ágóða, greiðsla fyrir afnot af auðlindinni sem allir stjórnmálamenn eru sammála um að sé eign þjóðarinnar, a.m.k. á tyllidögum. Hver á að bera ágóða og arð af eignum ef ekki eigandi auðlindarinnar?