143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og spurningar. Ég mun reyna að svara þeim eins vel og ég get. Kannski get ég ekki svarað öllum en ég mun reyna að svara því sem ég get.

Í fyrsta lagi, af því að hv. þingmaður spyr um Matvælastofnun, er gert ráð fyrir því að það komi fram tillaga fyrir 2. umr. um aukið fjármagn til Matvælastofnunar upp á 105 milljónir. Síðan spyr hv. þingmaður um Byggðastofnun. Ég get fullvissað hv. þingmann um að uppi eru hugmyndir um hvernig styrkja megi og tryggja framtíð Byggðastofnunar til lengri tíma. Það er það sem er í rauninni verið er að gera í öllum þessum málum, að horfa til lengri tíma, vera með nýtt upphaf og reyna að koma hlutunum áfram. Hv. þingmaður veit að mörg þau verkefni sem voru sett af stað á síðasta kjörtímabili voru hugsuð sem tímabundin verkefni. Önnur voru vissulega hugsuð til lengri tíma en mörg hver voru hugsuð sem tímabundin og áttu að renna út samkvæmt ákvörðun fyrri ríkisstjórnar ef ég man rétt.

Varðandi sóknaráætlun og annað sem hv. þingmaður spurði um því tengt verð ég að sjálfsögðu að minna hann á að slíkar áætlanir eru undir öðrum ráðherra, undir öðru ráðuneyti en ég tel ósköp eðlilegt, og tala út frá mínu persónulega sjónarmiði, að mörg verkefni sem voru inni í þeim áætlunum séu mjög áhugaverð og vel til þess fallin að halda áfram, hvernig svo sem við gerum það. Ég er ekkert endilega viss um að sóknaráætlunarfyrirkomulagið sé það besta en það er í sjálfu sér annarra, þeirra sem eru með þær áætlanir hjá sér, að svara fyrir það hvernig þeir sjá þær til framtíðar.

Það er ósköp eðlilegt að mínu viti að menningarsamningar og aðrir samningar séu undir sömu endurskoðun og aðrir hlutir í fjárlagafrumvarpinu sem hér er lagt fram. En þótt menn séu að endurskoða hluti eins og vaxtarsamninga eða menningarsamninga eða annað þýðir það ekki, og það veit hv. þingmaður, að menn séu hættir við þau verkefni sem þar eru. (Forseti hringir.) Það geta einfaldlega verið aðrar leiðir til þess.