143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:02]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að fletta í gegnum fjárlagafrumvarpið og verð að segja að þetta rit er ekkert sérstaklega notendavænt fyrir nýja þingmenn, kannski fyrir þá sem hafa setið lengi og eru vanir. Ég byrjaði fyrst að velta fyrir mér af hverju væru ekki tölur í frumvarpinu eins og í venjulegum ársskýrslum frá 2013 og 2012 til samanburðar. Það hefði verið gagnlegt. En það er gaman að fylgjast með þeim sem eru vanari því að fjalla um fjárlagafrumvörp og læra um leið.

Ég var að rýna í landbúnaðarstyrkina og í gegnum rit sem upplýsingaþjónusta Alþingis gaf út gat ég krafsað mig fram úr því, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að landbúnaðarstyrkir standa í stað núna en svo sýnist mér vera gefið aðeins í 2014. Mig langar að spyrja hverju það sæti. Er það vegna búvörusamninga sem þegar hafa verið gerðir, þ.e. sem síðasta ríkisstjórn gerði, eða hvað er að gerast? Ég segi eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir að ég hefði gjarnan viljað sjá uppstokkun í landbúnaðarkerfinu til heilla fyrir það.

Þá aðeins að sjávarútvegi. Ég varð glöð að heyra það í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar hér í gær og líka í máli hv. formanns atvinnuveganefndar, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, og held að við séum öll sammála um að það verði að vera sátt og vinna að sátt í sjávarútvegi því að það liggur svo mikið undir. Við þurfum að skapa langtímaumhverfi þar sem sjávarútvegurinn fær að vaxa og dafna til þess að skila sem mestum arði fyrir þjóðina. En ég legg áherslu á að stjórnmálamenn verða að taka upp ný vinnubrögð hvað það varðar. Ef við ætlum bara að ná sátt á einn veg þá heldur hún ekkert og það er ekki gott fyrir greinina. Þetta þarf að gerast í samvinnu svo að við séum að vinna með eitthvert tuttugu ára plan en ekki fjögurra ára plan. Ég hvet til þess.

Það var ekki meira í bili.