143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Þar sem þingmaðurinn spyr hvað skýri lítils háttar aukningu á fjárlögum 2014 þá er hún fyrst og fremst vegna aukinna framlaga til kornræktar og ylræktar. Ef ég hef skilið þetta rétt byggir það á búnaðarlagasamningi sem þegar hefur verið gerður og var væntanlega gerður af síðustu ríkisstjórn eða framlengdur.

Það er mjög ánægjulegt að geta ítrekað það sem kom fram hér í ræðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ég held að það hafi verið við stefnuræðu, þar sem ráðherrann upplýsti um og skýrði frá því að ásetningshlutfall sauðfjár verður aukið og jafnframt verður heimilað að framleiða meira af mjólk. Þar af leiðandi er óhætt að segja í það minnsta að framtíð íslensks landbúnaðar er ágæt en við verðum að sjálfsögðu að horfa á heildarmyndina og skapa þeirri atvinnugrein öryggi til lengri tíma líkt og öðrum atvinnugreinum.