143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er mjög mikilvægt sem hefur komið fram í stefnumiðum þessarar ríkisstjórnar, það að einfalda kerfið eins og við köllum það, einfalda það að þegar menn vilja búa til fyrirtæki eða setja eitthvað af stað þurfi þeir einmitt ekki að fara þá löngu leið sem hér var ágætlega lýst.

Þetta er að okkar mati hægt að gera án þess að fórna, ef það má orða það þannig, eða setja einhvers staðar einhverjar hættur inn í þetta allt saman, ef við gerum þetta bara af skynsemi, skoðum allt regluverkið, sameinum mögulega einhverja aðila sem eiga að fjalla um þetta er hægt að spara fólki töluvert mikla fjármuni, að okkar mati.

Það er líka mjög mikilvægt að við nýtum þau sóknarfæri sem eru í matvælaframleiðslu og að við nýtum þau á Íslandi. Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á er gert ráð fyrir að mikil þörf sé fyrir stóraukna matvælaframleiðslu. Það má segja að við séum að gefa merki um að við ætlum að vera þátttakendur í því með því að auka ásetningshlutfallið og auka við mjólkurkvótann. Með því erum við að sjálfsögðu líka að senda þau skilaboð út að Íslendingar ætli sér áfram að vera þátttakendur í matvælaframleiðslu.

Það er annað sem ég vil leyfa mér að koma hérna að fyrst við erum að ræða landbúnaðinn, það er mjög mikilvægt fyrir okkur að horfa vel til þess hvernig við nýtum landið og hvaða land við ætlum að nýta til landbúnaðar, hvaða land við ætlum að nýta þá til skógræktar o.s.frv. Þetta er mál sem við verðum að taka mjög alvarlega. Ég segi ekki að það sé alls staðar en víða um heim er land að láta undan, minna og minna af landi er notað til matvælaframleiðslu. Það eru fleiri og fleiri sem gera sér hins vegar grein fyrir því að það verður að bregðast við og það er eitt af þeim málum sem íslensk þróunaraðstoð tekur til, einmitt að styðja þá sem eru að reyna að fara í landgræðsluverkefni. Þeir geta þá, í einhverjum tilfellum í það minnsta, lært af Íslendingum.