143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil velta því upp gagnvart hæstv. byggðamálaráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að samflokksmaður hans og forsvarsmaður í bæjarstjórn í Ísafjarðarbæ og í forsvari fyrir landshlutasamtök kalli þetta fjárlagafrumvarp aðför að landsbyggðinni. Það er í því samhengi að menn treysti sér ekki til þess að leggja hærri veiðigjöld á útgerðina sem græðir á tá og fingri og það sýni sig í þessum fjárlögum að það þurfi að skera svo mikið niður í málaflokkum sem heyra undir byggðamál í landinu að landsbyggðin eigi að gjalda þess að útgerðin í landinu geti ekki lagt meira til samfélagsins.

Á síðasta kjörtímabili töluðu hv. þingmenn Framsóknarflokksins mikið um að efla atvinnu í landinu og að það væri hægt að jafna ýmislegt, svo sem búsetuskilyrði sem sneru að flutningsjöfnun og orkuverð, sögðu að það gengi of hægt í þeim efnum. Þó að fyrri ríkisstjórn hefði tekið skref í þá átt vildu menn gera meira. Fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar er hins vegar að lækka skatta á stóreignamenn og fara í matarholurnar úti á landsbyggðinni, landsbyggðinni sem hefur átt undir högg að sækja. Þar er hamrinum lyft, þar er skorið niður. Ég ítreka bara spurningu mína um hvort hæstv. ráðherra byggðamála telji þetta uppbyggilegt innlegg til landsbyggðarinnar og hver framtíð hennar eigi að vera.

Varðandi flutningsjöfnunarsjóðinn, er það ekki óvissa fyrir þá aðila sem þurfa að búa við það á næsta ári að vita ekkert hvort það verður haldið áfram og hvort þeir fái þá greitt árið 2015? Er það ekki óvissa að vita það ekki þó að núna séu til peningar til að greiða út fyrir liðið ár? Það hlýtur að vera óvissa að hafa það ekki á hreinu þegar ráðherra talar um „ef“ þessi flutningsjöfnuður verður framlengdur. Er ekki hægt að halda neinu góðu gangandi sem gert hefur verið af síðustu ríkisstjórn? Þarf að byrja á upphafsreit? Byggðirnar þola það ekki ef menn fara á einhvern upphafsreit í byggðamálum.

Það skortir ekki skýrslurnar og það skortir ekki nefndirnar. Það skortir aðgerðir. Ég hélt að hæstv. ríkisstjórn mundi setja uppbyggingu á landsbyggðinni í forgrunn miðað við hvernig hún hefur talað allt síðasta kjörtímabil.