143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það var í áætlunum síðustu ríkisstjórnar að framlengja hvorki auðlegðarskattinn né raforkuskattinn. Síðasta ríkisstjórn lagði sérstakan landsbyggðarskatt á, hið sérstaka veiðigjald. Hvar kom það verst niður? Á litlum og meðalstórum útgerðum þar sem ekki verður, held ég, hægt að segja eða fullyrða að þar ausi menn fjármunum í kringum sig eða að það séu stóreignamenn eða hvernig hv. þingmaður orðaði þetta. Hv. þingmaður þyrfti nefnilega að kynna sér það aðeins að það er fullt af litlum og meðalstórum útgerðum í landinu sem hafa það býsna skítt. Hins vegar eru vissulega til, og sem betur fer, mjög öflugar útgerðir sem hafa það mjög gott. Þær útgerðir borga stærstan hluta af því veiðigjaldi sem við tölum hér um.

Það er líka mjög mikilvægt að hv. þingmaður átti sig á því að þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar skilur hér eftir 25–30 milljarða gat verður ekki stoppað upp í það með því einu að leggja á hærri veiðigjöld og leggja þar með heilu byggðirnar í rúst þannig að fyrirtækin leggi upp laupana. Hv. þingmaður hlýtur líka að átta sig á því, eins og ég held að vinstri menn geri sér jafnvel því miður ekki grein fyrir, að það er atvinnulífið sem býr til tekjur.