143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst það alltaf svolítið skrýtið þegar menn segja að einhver sé að halda því fram að sjávarútvegurinn greiði ekki til samfélagsins. Sjávarútvegurinn greiðir náttúrlega, ef það er hagnaður þá greiðir hann tekjuskatt og það hefur enginn haldið öðru fram. Því sem haldið er fram er að fyrir þau sérréttindi að nýta auðlindina í sjónum, auðlindina sem við eigum öll, eigi þeir sem það gera að greiða meira til samfélagsins en þeir gera nú. Það er staðreynd að í stórum sjávarútvegsfyrirtækjum hér á landi greiða menn sér út mjög mikinn og háan arð. Það virðist vera að áherslan sé fremur á að greiða sér út arð en að nota peningana til að fjárfesta aftur í þessum mikilvæga atvinnuvegi.(Gripið fram í.) Ég geri kröfu til þess að undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar sem nýtir okkar sameiginlegu auðlind borgi til samfélagsins þannig að við getum haldið uppi sómasamlegu heilbrigðiskerfi, menntakerfi og hvað það allt saman er nú kallað.