143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:34]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir mikilvægi þess að hér sé rekinn öflugur og góður landbúnaður. Við þurfum að tryggja búsetu í sveitum landsins. Það er gríðarleg þekking í sveitunum á landinu, á verðmæti landsins og möguleikunum sem þar liggja. Við framleiðum upp í 12 þús. tonn af korni á ári. Markaðurinn á Íslandi kallar á 65 þús. tonn. Þar eru gríðarleg tækifæri fyrir okkur að vinna. Ungir og myndarlegir bændur með mikla reynslu eru að vinna að því að innan fárra ára munum við standa undir þeirri framleiðslu og þeirri notkun sem er í landinu.

Bændur eiga líka samleið með neytendum og við þurfum að standa vörð ásamt þeim og neytendum um gæði vörunnar, um heilnæmi hennar og uppruna. Það er gríðarlega mikilvægt að við hugsum um uppruna vörunnar, að við séum að framleiða og borða og njóta íslenskra gæða.

Ylræktin er á fleygiferð og við þurfum líka að huga að henni. Ýmsir kostnaðarliðir hafa staðið henni fyrir þrifum en víða á Suðurlandi eru gríðarlega metnaðarfull bú. Friðheimar í Árnessýslu framleiða 1 tonn af tómötum á dag. Það er gríðarlegt magn. Þetta er framleiðsla sem stenst ýtrustu kröfur sem gerðar eru í heiminum. Við eigum því góðan landbúnað. Við eigum góða og framsækna bændur sem við þurfum líka að standa með.