143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það er ljóst að við mörg hver sem hér höfum talað erum sammála um að það eru tækifæri í sjávarútveginum og landbúnaðinum, fullvinnslu og öðru slíku. Ég ítreka það sem áður hefur verið sagt að það er þá okkar að skapa umhverfi sem gerir að verkum að þeir aðilar sem þarna starfa geti sett fjármuni og krafta í að styrkja sig á þessum vettvangi.

Hér hefur líka verið rætt um arðgreiðslur fjármálafyrirtækja og arðgreiðslur í útgerð. Það hafa líka verið ágætisarðgreiðslur, sýnist mér, í sumum verslunarfyrirtækjum. Það er einmitt spurning hvort einokunarfyrirtæki í verslun eigi ekki að greiða aðeins meira til samfélagsins.