143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina en verð að lýsa því yfir að það er fullkomlega óboðlegt að sjálfur umhverfisráðherrann sé ekki viðstaddur þessa umræðu. Ráðherrar þurfa að halda til haga einum degi á ári til að gera grein fyrir fjármálum í málaflokki sínum fyrir löggjafarvaldinu, fyrir fjárveitingavaldinu í landinu og það er lágmarkskrafa að þeir skipuleggi tíma sinn þannig að þeir geti verið hér við umræðuna svo að maður þurfi ekki að eiga orðastað við staðgengla þó að ágætir séu og efnilegir leiðtogar úr Framsóknarflokknum eins og hér í dag.

Það er kannski ástæða til að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra um stöðu þessa frumvarps og þeirra tillagna sem hér eru á borðinu vegna þess að það hefur verið að heyra á umræðunni að þetta sé ekki fjárlagafrumvarp stjórnarmeirihlutans heldur einhvers konar umræðugrundvöllur sem eigi eftir að taka miklum breytingum í þinginu. Það hefur jafnvel heyrst að frumvarpið eða efni þess hafi ekki verið kynnt fyrir þingflokki Framsóknarflokksins heldur hafi sá stóri þingflokkur mátt kynna sér frumvarpið í fjölmiðlum eins og almenningur. Við hljótum þess vegna að spyrja að því hér hvort þetta sé nýlunda í fjárlagagerð þannig að fjárlagafrumvarpið sé einhvers konar hugmynd frá formanni Sjálfstæðisflokksins sem framsóknarmönnum í þinginu sé algerlega frjálst að breyta eftir vild sinni eða hvort þetta sé frumvarp sem stjórnarmeirihlutinn í þinginu standi á bak við. Umfjöllun okkar um fjárlagafrumvarpið hér hlýtur auðvitað að helgast af því hvort það séu bara vangaveltur hjá Sjálfstæðisflokknum sem eru á borðinu eða hvort þetta sé tillaga stjórnarmeirihlutans á Alþingi að fjárlögum fyrir næsta ár.

Ég hlýt líka að spyrja í upphafi umræðunnar hvort Framsóknarflokkurinn sé enn þá með vangaveltur um það að leggja niður umhverfisráðuneytið. Maður sér náttúrlega hversu ríkulega hnífnum er beitt á málaflokkinn, þar er skorið niður um 6,9%. Það er auðvitað full ástæða til að hafa áhyggjur af því þegar slíkum hugmyndum hefur verið hreyft af varaformanni Framsóknarflokksins fyrr á árinu að til greina komi að leggja umhverfisráðuneytið niður. Því er vert að heyra frá einum af helstu leiðtogum flokksins alveg skýrt hvort þau áform séu ekki alveg örugglega út af borðinu.

Ég vil líka, vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur tekið þá afstöðu í einum mikilvægasta málaflokki þessarar aldar að hafa hann sem aukaráðuneyti hjá öðrum ráðherra, spyrja hæstv. ráðherra hvort við megum ekki vænta þess að fyrir þennan málaflokk komi sérstakur ráðherra og hvenær þess megi þá vænta.

Vegna þess að svo vel ber í veiði að við höfum hér utanríkisráðherra þá vil ég spyrja hann sérstaklega um stöðu IPA-styrkjanna í þessum málaflokki hjá Náttúrufræðistofnun, hvort það geti verið að fallið verði frá IPA-styrkjunum til þeirra verkefna sem nú þegar eru í gangi, hvort (Forseti hringir.) nú séu viðræður um það í gangi í Brussel og hvenær (Forseti hringir.) niðurstöðu megi vænta í því efni því að (Forseti hringir.) það mun hafa áhrif á niðurstöðu fjárlaganefndar.