143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta var undarleg ræða um umhverfis- og auðlindamál. Ég verð þó að minna hv. þingmann á að það er þekkt hér á Alþingi að ráðherrar leysi hver annan af. Minnist ég þess til dæmis þegar mjög stórt sjávarútvegsfrumvarp var flutt af varaformanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og var mjög vel gert á þeim tíma.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég á að fara í þennan skylmingaleik, sem mér finnst hálfómálefnalegur, við hv. þingmann sem talar um Framsóknarflokkinn hitt og Framsóknarflokkinn þetta. Að sjálfsögðu, og þingmönnum er það ljóst, fer fjárlagafrumvarp ekki inn í þingið nema það sé samþykkt af báðum stjórnarflokkum. Ég held að þingmaðurinn hljóti að vita það eftir áralanga reynslu á þingi og mig grunar að einhvern tíma hafi verið tekin umræða um fjárlög í herbergi Samfylkingarinnar í þessu húsi. Að sjálfsögðu er það þannig að báðir stjórnarflokkarnir standa að baki fjárlagafrumvarpinu sem er lagt fram hér, það er ekki hægt að leggja það fram öðruvísi.

Við þekkjum það hins vegar vel, og ég vona að þeir sem eru reynslumiklir á þingi rifji það upp, að oft hafa fjárlögin tekið breytingum þegar þau koma inn til þingnefnda. Oft er það þannig að þingmenn sem standa að heildarplagginu hafa athugasemdir við hitt og þetta í frumvarpinu, það er ekkert að því. Menn vita að fjárlagafrumvarpið er meginstefnumál sem er lagt fram hér en menn hafa alls konar skoðanir á einstökum hlutum þess.

Mér þykir leitt að þingmaðurinn skuli velja þennan stað og þessa stund til að reyna að halda á lofti og sá einhverjum fræjum ósanninda um að það eigi að leggja niður umhverfisráðuneytið. Það er að sjálfsögðu ekki þannig. Það er hins vegar ekki ljóst, og engin tímasetning gefin upp það, hvenær skipaður verður nýr umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að svara þessu um IPA-styrkina, ég get svarað því síðar í dag þegar ég kem hér sem utanríkisráðherra en hv. þingmaður þekkir svo sem stöðuna með IPA-styrkina. Ég get kannski svarað því í stuttu máli að þeir IPA-styrkir sem búið er að semja um og í þeim verkefnum sem eru komin af stað halda áfram.