143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að eyða óvissu hér um ákveðin atriði. Þetta um IPA-styrkina, þau verkefni sem farin eru af stað munu halda áfram. Ég hafði heyrt ávæning um að annað gæti verið í aðsigi. Ég þakka ráðherranum líka fyrir að taka af alla óvissu um það að þingflokkur Framsóknarflokksins hefur samþykkt þetta fjárlagafrumvarp til framlagningar í þinginu. Það er auðvitað gott að vita að í öllum meginatriðum skuli þingmenn flokksins standa heilir að baki frumvarpinu vegna þess að þannig á það auðvitað að vera, það alvöruplagg sem hér er til umfjöllunar.

Hinu verður hæstv. ráðherra að una, að fjallað sé nokkuð hraustlega um umgengni Framsóknarflokksins um umhverfismál. Nýjasta dæmið um það er þegar hæstv. fjarverandi umhverfisráðherra tilkynnti að hann ætlaði að afturkalla lög um náttúruvernd. Ég held að það segi allt sem segja þarf um framgöngu flokksins í málaflokknum.

Ég vildi síðan spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur verið áhugasamur um atvinnuuppbyggingu og ferðaþjónustu í landinu, hvort það sé ekki einhver víðáttuvitlausasta ákvörðun sem tekin hefur verið í þinginu að hverfa frá þegar ákveðinni skattlagningu á erlenda ferðamenn til þess að hætta síðan við atvinnuskapandi verkefni og nauðsynlega uppbyggingu í innviðum í ferðaþjónustu hringinn í kringum landið. Hér var nefnt Kirkjubæjarklaustur. Ég þakka ráðherranum fyrir að lýsa því yfir að þeir séu ekki hættir við verkefnið en ég hlýt þá að spyrja 2014: Þýðir það þá að af því verði 2015 eða hvenær ætlar Framsóknarflokkurinn að fara í þetta verkefni? (Gripið fram í: Strax.) Er einhver von til þess að menn innleiði gjald á erlenda ferðamenn þegar í upphafi næsta árs til að ráðast í þessi þörfu verkefni og mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir slíku?

Að lokum: Hvað um stjórnun vatnamála? Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af því að sá niðurskurður sem þar er komi niður á stjórnun þessa mikilvæga málaflokks fyrir okkur, sem ég held að við séum öll sammála um — að vatnamálin sem varða okkur svo miklu í öllu atvinnulífi séu skorin svona hraustlega niður? Mun það ekki koma (Forseti hringir.) niður á vottun íslenskrar framleiðslu til útflutnings á næstu árum?