143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort það sé ekki víðáttuvitlaust að hverfa frá boðaðri skattheimtu á ferðamenn. Ég er ekki sammála því að það sé eitthvað víðáttuvitlaust. Það er verið að endurskoða hvort það séu til betri leiðir, hvort það sé betra að gera þetta einhvern veginn öðruvísi. Vonandi skýrist það eins fljótt og mögulegt er. Nefnd á vegum atvinnuvegaráðuneytis og umhverfisráðuneytis vinnur að úrbótum og því að finna lausn á þessu. Ég geri fastlega ráð fyrir því að á einhverjum tímapunkti verði einhvers konar skattur innheimtur af ferðamönnum.

Hv. þingmaður spyr um stjórn vatnamála. Þar er vissulega skorið verulega niður. Það er hins vegar 10 milljóna tímabundið framlag þarna inni og það má segja að við hefðum viljað getað sett meiri fjármuni þarna, en eins og víða annars staðar verður að loka þessu 25–30 milljarða gati sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna skildi eftir sig. Því miður kemur það niður á þessu eins og ýmsu öðru. Ég vil kannski ekki orða það þannig að við höfum frest en það er árið 2016 sem þetta tekur að fullu gildi. Ég geri ráð fyrir að við verðum komin á rétt ról einhvern tíma fyrir það, eða vonandi.