143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Því miður er hæstv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála ekki til svars. Það hefði verið gríðarlega mikilvægt vegna þess að í fjárlagafrumvarpinu birtist hin raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki eins og öðrum og kannski síður í stefnuræðu forsætisráðherra sem einu sinni sem oftar talaði um mikilvægi þess að umhverfismálunum væri gert hátt undir höfði og að við værum áfram til fyrirmyndar á heimsvísu í umhverfismálum.

Ég vil spyrja hæstv. starfandi umhverfisráðherra hvernig þessi tiltekna áhersla á umhverfismál endurspeglist í frumvarpinu. Kemur hún fram í 30 millj. kr. framlagi til refaveiða? Kemur hún fram í 35 millj. kr. samningi við Skógræktina eða hvar kemur þessi mikla áhersla fram, virðulegi forseti?

Ég má til með að nefna það líka hér að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson afhjúpaði í raun og veru í ræðustól þá staðreynd að forsendur frumvarps til fjárlaga voru ekki samþykktar í stjórnarflokkunum áður en gengið var frá frumvarpinu. Ég vil fá úr þessu skorið og með skýrari hætti en hér var gert áðan því að þetta undirstrikar og dregur fram ástæðuna fyrir þeirri umræðu sem hefur verið í samfélaginu um fjárlagafrumvarpið sem hefur komið fram í því að menn tala um fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra eins og umræðugrundvöll, eins og hugmyndalista, en ekki eins og stefnuplagg ríkisstjórnarinnar. Þetta er alvarlegt mál, virðulegur forseti.

Ég spyr hæstv. ráðherra um þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri og um gestastofu vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs sem þar átti að rísa. Hér er talað um að felldar séu niður 290 milljónir og þetta er hluti af byggðastefnu, þetta er hluti af afstöðu til sóknaráætlunar, þetta er hluti af afstöðunni til brothættra byggða, þetta er hluti af afstöðunni til þess hvernig sveitarfélög á Suðurlandi hafa forgangsraðað sínum áherslumálum sem eru nákvæmlega þarna. Í þessum efnum eins og öðrum er ríkisstjórnin að draga tennurnar úr öllu því sem gert hefur verið hér í þágu valddreifingar og byggðasjónarmiða fyrir utan það að þetta er táknræn ákvörðun sem snýst um það að innviðir friðlýstra svæða á Íslandi eru alls staðar í frosti á árinu 2014. Menn tala hér um skýra framtíðarsýn og hæstv. ráðherra segist gera ráð fyrir skatti af ferðamönnum, gera ráð fyrir skýrri framtíðarsýn. En þessi mál, (Forseti hringir.) friðlýsingar svæða í þjóðgarði á Íslandi, eru í frosti, hugmyndaleysi og fullkomnu uppnámi (Forseti hringir.) á árinu 2014.