143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það sem er verið að boða, að sjálfsögðu, varðandi þær breytingar sem hér er verið að gera er nákvæmlega það sem hv. þingmaður kom inn á og var kannski kjarni hans ræðu; hvernig við notum fjármunina sem best. Mestu skiptir að við nýtum þá fjármuni sem við höfum til að sinna umhverfismálunum og sinna náttúruverndinni beint. Það er ekkert óeðlilegt við að nú í upphafi kjörtímabils sé sest yfir málin og skoðað hvort við erum að gera þetta á nógu góðan hátt. Það er að sjálfsögðu það sem er verið að gera og verður gert.

Ég vil leyfa mér, fyrst ég er uppi núna, að ítreka varðandi vatnið sem var spurt um áðan að það er eingöngu verið að fresta því að þetta taki gildi, þ.e. að þessir peningar komi. Á endanum eru það notendurnir sem munu greiða kostnaðinn, þetta gjald. Við höfum, ef ég fer ekki með neitt fleipur, frest til 2016 að þetta taki gildi og við gerum ráð fyrir að það gerist fyrir þann tíma.