143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:17]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er engin furða að menn spyrji sig um stefnu Framsóknarflokksins í umhverfismálum og það er ekkert ómálefnalegt við að gera athugasemdir við að hæstv. umhverfisráðherra sé ekki til staðar til að taka til svara í þessari umræðu. Það er um margt að spyrja.

Ég vil fyrst nefna, af því að hæstv. utanríkisráðherra æstist mjög við orð hv. þm. Helga Hjörvars um að framsóknarmenn hefðu haft í hyggju að leggja niður umhverfisráðuneytið, að það var hæstv. umhverfisráðherra sem sagði að í hinum fullkomna heimi í framtíðinni yrði umhverfisráðuneytið óþarft og rímar það kannski við ræðu hæstv. forsætisráðherra um fyrirmyndarríkið sem Framsóknarflokkurinn stefnir að.

Ég sakna þess að hafa ekki umhverfisráðherra hér til þess að eiga orðastað við hann um það fjölmarga sem hann hefur lagt til umræðunnar um umhverfismál í sumar, hvort sem það er um þá fyrirætlun hans, á þeim skamma tíma sem liðinn er af þessu kjörtímabili, að taka upp rammaáætlun sem hann síðan breytti og ákvað að láta verkefnastjórn halda áfram, um fyrirætlanir hans um ráðuneytið sjálft eða þá fyrirætlan hans að afturkalla náttúruverndarlög eins og hann orðaði það. Ég hefði gjarnan viljað fá svör við því, og kannski getur hæstv. utanríkisráðherra svarað því þótt hann sé auðvitað sá ráðherra í ríkisstjórninni sem er lengst í burtu frá þeim málaflokki sem hér er fjallað um, hvað það er nákvæmlega í náttúruverndarlögunum sem ráðherrann vill breyta. Hvaða efnisatriði eru það sem þarf að ríkja meiri sátt um og hvernig birtist það í fjárlagafrumvarpinu? Hvernig birtast þær áherslur sem Framsóknarflokkurinn hefur þar?

Það er ekkert ómálefnalegt við að spyrja þeirra spurninga sem menn hljóta að spyrja sig að, það er enginn skætingur, það er bara umhyggja fyrir málaflokknum. Ég tala nú ekki um þegar Framsóknarflokkurinn hefur tekið sér rúmlega fjóra mánuði til að reyna að finna mann sem á að gegna þessu embætti, svo umhugað er honum um málaflokkinn. Svo umhugað er honum um málaflokkinn að umhverfisráðherrann er ekki einu sinni hér við umræðuna.

Svo umhugað er honum um þennan málaflokk að græna hagkerfið hefur nú verið fært undir liðinn Þjóðmenningu og fært undir hæstv. forsætisráðherra sem er ekki hérna heldur. Og hver er þjóðmenningin í skilningi hæstv. forsætisráðherra? Jú, það er eitthvað sem einu sinni var.