143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því mjög að hv. þingmaður ætli að veita ákveðið og mikið aðhald þegar kemur að þessum málaflokki. Það er mjög mikilvægt að við eigum hreinskilna og góða umræðu og að menn komi sínum sjónarmiðum að þegar verið er að ræða umhverfismálin. Ég fagna því. Að halda því fram að Framsóknarflokkurinn og umhverfismálin séu eins og olía og vatn er hins vegar alveg út í hött. Ef hv. þingmaður áttar sig á því, skoðar hvað við höfum sagt, hvað er í pípunum og hvað við erum að gera þá sér hann að það er rangt.

Umhverfismál snúast að mínu viti ekki bara um að Íslendingar eigi að gera betur og betur og betur. Við þurfum að sjálfsögðu að rækja okkar skyldur, við þurfum að draga úr mengun og við þurfum að vernda umhverfið. Við þurfum að leggja okkar af mörkum í að framleiða græna orku sem er þá nýtt og kemur í veg fyrir mengun annars staðar. Ég held að við séum kannski sammála um það en við erum væntanlega ósammála, ég og hv. þingmaður, þegar kemur að því að nýta tækifærin sem, kannski því miður, breytingar í náttúrunni og umhverfismálum eru að skapa.

Við Íslendingar eigum ekkert að skammast okkar fyrir að nýta þau tækifæri sem verða til. Við eigum ekki að stíga til baka og segja: Æ, það er að opnast siglingaleið út af hlýnun og jöklarnir eru bráðna og við eigum að skammast okkar og ekki nýta það. Þannig eigum við ekki að hugsa. Við eigum að leggja okkar af mörkum þegar kemur að umhverfisumræðunni og umhverfismálum, taka þátt í því eins og við gerum alls staðar á alþjóðavettvangi og hérna heima. En við eigum ekki að skammast okkar fyrir að nýta tækifærin sem skapast.