143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur kannski ekki beint snúist um fjárlög og umhverfis- og auðlindaráðuneytið eða hvernig verður hagrætt innan þess heldur almennt um vangaveltur stjórnarandstæðinga um náttúruvernd, sem er ágætt. Það eru ýmsar meiningar í gangi um hvaða afstöðu við í Framsóknarflokknum höfum. Ég held að ótti fólks sé ástæðulaus. Við ætlum að reyna að standa okkur vel. Við ætlum jafnvel að reyna að standa okkur betur en núverandi stjórnarandstöðuflokkar gerðu á síðasta kjörtímabili. Ég vona að við fáum frið til þess og að stjórnarandstæðingar komi og styðji okkur í þeirri viðleitni frekar en draga niður það sem verður gert.

Ég get alveg tekið undir að það er ekki gott að hæstv. umhverfisráðherra hafi ekki séð sér fært að vera hér í dag. Ég skal taka undir það. Ég vil þó taka það fram að hann mun koma fyrir umhverfis- og samgöngunefnd þar sem þingmönnum úr öllum flokkum gefst væntanlega tækifæri til þess að spyrja hann út í hin fjölmörgu álitaefni sem hér hafa komið fram en hafa í rauninni ekkert með fjárlög að gera.

Ég held að við verðum að átta okkur á því að nú erum við í 1. umr. fjárlaga. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem segir að við ætlum eitthvað að hverfa frá þeirri braut sem síðustu stjórnarflokkar mynduðu, ekki neitt. (Gripið fram í: Þó það nú væri.) Þó það nú væri. Það var margt gott gert, hv. þingmaður, en höfum það samt á hreinu, virðulegi forseti, að við verðum að stoppa hallann á fjárlögum. Það er alveg sama hvar við drepum niður, það verður einhvern veginn að hagræða og fresta. Í þessum málaflokki erum við ekki að stöðva framkvæmdir, við erum einfaldlega að fresta þeim. Ég er alveg sannfærður um að ef stjórnarandstæðingar hefðu verið í sömu sporum hefðu þeir stigið svipuð eða sambærileg skref.

Ég hef ekki heyrt nokkurn þingmann koma hérna fram og segja: Við skiljum að það þurfi að hagræða og skera niður en við hefðum gert það svona. Það er endalaust talað um að það þurfi að bæta í þetta, bæta í hitt. Það er alveg sama hvað það er, það er alltaf of mikið. (Gripið fram í.) Við þurfum að koma umræðunni á það plan, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að við ræðum um fjárlög ríkissjóðs af ábyrgð og aga. Það er verkefni okkar. Ég er sannfærður um að þingmaðurinn mun styðja okkur í þeirri viðleitni vegna þess að ef (Forseti hringir.) einhver hefur sýnt að hann er agaður stjórnmálamaður þá er það hv. þingmaður.