143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég neyðist því miður, vegna orða þingmannsins, til að ítreka að þessi áætlun ríkisstjórnarinnar var ekki fjármögnuð. Hv. þingmaður kveikti sjálf á þessari umræðu og neyðir mig til að segja það sem er að sjálfsögðu rétt. Við erum sammála, held ég, um að við þurfum að taka á þessu. Við þurfum að taka á innviðum í friðlýstum svæðum, við þurfum að byggja upp ferðamannastaðina þannig að þeir þoli áganginn og þetta allt saman. Ég held að okkur greini ekkert á um það.

Við horfum hins vegar fram á að verða að taka af og fresta ákveðnum hlutum í þessu fjárlagafrumvarpi og í þessari áætlun. Það er því miður staðreyndin. En það þýðir ekki að verkefnið sé slegið út af borðinu eða að menn hafi ekki skilning á því eða þá að það sé fundið léttvægt eða eitthvað svoleiðis. Við verðum einfaldlega að fresta ákveðnum hlutum og það er það sem er boðað þarna.