143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú liggur það fyrir — bara af því að það er svo áþreifanlegt — að núverandi hæstv. ríkisstjórn fékk það samþykkt hér á sumarþingi að falla frá hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna; ferðaþjónustuna sem er stærsti vaxtarsprotinn í íslensku atvinnulífi. Á sama tíma hefur hæstv. ríkisstjórn talað fyrir því að finna þurfi einhverjar leiðir til að skattleggja þá ferðamenn sem hingað koma en hún gat alls ekki hugsað sér að nýta þær tillögur sem fyrri ríkisstjórn hafði lagt til með hækkun virðisaukaskatts.

Við erum sammála um að það þarf að taka á þessu, ráðherrann segir að hér þurfi að fresta. Nú liggur það fyrir út frá þeim áætlunum sem hér liggja fyrir, ekki bara í þessum fjárlögum heldur til næstu ára, að þar verður ekki nokkur afgangur. Það verður ekki afgangur til að byrja að greiða niður skuldir og það verður ekki afgangur til að hefja neina uppbyggingu á innviðum. Þetta liggur fyrir. Þetta kemur alveg klárlega fram.

Er hæstv. ráðherra að segja að fyrst verði svigrúm til að fara í einhverja uppbyggingu á innviðum á friðlýstum svæðum á árinu 2017 þegar hugsanlega verði afgangur? Hvenær megum við eiga von á að ríkisstjórnin komi þá saman einhverjum hugmyndum um gjaldtöku af ferðamönnum? Er hæstv. ráðherra tilbúinn að ræða það hér að sú gjaldtaka verði þá nýtt beinlínis til uppbyggingar á friðlýstum svæðum? Því að ég held að þessi svæði sem eru hér 2012, sex í rauðum flokki og ríflega helmingi fleiri í appelsínugulum flokki, sem þýðir að svæðin eru við það að tapa verndargildi sínu eða hafa tapað því að hluta til — er hann að segja að því sé bara frestað nokkur ár fram í tímann og heldur hann að þessi svæði þoli þá bið?